Rapparinn Travis Scott og aðrir hefðu átt að stöðva tónleikana á Astroworld-tónlistarhátíðinni um helgina í Houston í Bandaríkjunum. Þetta er mat slökkviliðsstjóra í Houston. Átta létust og fjölmargir særðust eftir að hafa troðist undir í öngþveiti við svið tónleikanna þar sem Scott stóð í miðjum flutningi.
„Algjörlega. Við berum öll ábyrgð sjáðu til,“ sagði slökkviliðsstjóri Samuel Peña í viðtali við NBC þegar hann var spurður hvort að Scott hefði átt að binda enda á flutning sinn. „Allir á hátíðinni báru ábyrgð sem byrjaði hjá listamanninum og svo niður.“
Peña sagði að reynt hefði verið að ná sambandi við öryggisverði Scotts til þess að segja þeim að eitthvað væri að. „Á einum tímapunkti var sjúkrabíll að reyna að komast í gegnum þvöguna. Og hann hefur það, listamaðurinn hefur stjórn á áhorfendum,“ sagði slökkviliðsstjóri og sagði lítið mál fyrir listamann að gera hlé á tónleikum.
Peña sagði rannsóknina vera í fullum gangi en nú þegar hefur lögmannsstofa í Texasríki í Bandaríkjunum höfðað einkamál á hendur tónlistarmönnunum Travis Scott og Drake fyrir að hvetja til óreiðu og upplausnar á tónleikum á Astroworld-tónleikahátíðinni. Scott hefur lýst því yfir að hann sé miður sín yfir því sem gerðist á tónleikum hans.