Nóbelsverðlaunahafinn Malala Yousafzai er gengin í hjónaband. Þessu greindi hún frá á samfélagsmiðlum í gær. Yousafzai gekk að eiga Asser Malik í lítilli athöfn í Birmingham á Englandi.
„Í dag er einstakur dagur í lífi mínu. Við Asser gengum í hjónaband og lofuðum hvort öðru að vera saman að eilífu. Við fögnuðum með lítilli nikkah athöfn heima í Birmingham með fjölskyldum okkar. Sendið okkur bænir ykkar. Við erum spennt að halda í ferðalag lífsins saman,“ skrifaði Yousafzai.
Yousafzai var skotin í höfuðið af hermönnum talíbana fyrir að berjast fyrir rétti stúlkna til menntunar í heimalandi sínu, Pakistan. Hún lifði skotárásina af og fluttist fjölskylda hennar í kjölfarið búferlum ti Englands Birmingham á Englandi.
Yousafzai hefur í kjölfarið gefið út bókina Ég er Malala og varð friðarverðlaunahafi Nóbels yngst manna árið 2014, þá aðeins 17 ára gömul. Í dag er hún 24 ára og lauk á síðasta ári námi við Oxford háskóla.