Leikarinn Paul Rudd var valinn kynþokkafyllsti maður heims í ár af tímaritinu People. Rudd fylgir í fótspor manna á borð við George Clooney, Brad Pitt en í fyrra var það Michael B. Jordan sem hlaut útnefninguna.
Rudd segir í viðtali við People að fólk sé hissa á að hann hafi verið valinn sá kynþokkafyllsti. „Það eru svo margir sem ættu að fá þetta á undan mér,“ segir hinn 52 ára gamli leikari. Mörg lýsingarorð hafa verið notuð um hann en hann segist sjaldan hafa heyrt orðið sexí notað um sig.
Það er þó eitthvað við þessi grænu augu og smitandi bros Rudds sem hefur heillað áhorfendur í mörg ár. Hann hefur leikið í mörgum vinsælum gamanmyndum og nú snýr hann aftur á skjáinn með Will Ferrell í þáttunum The Shrink Next Door á streymisveitu Apple.
Þrátt fyrir frægðina hefur Rudd verið giftur sömu konunni í 18 ár, Julie Yaeger. Hann segist vera hamingjusamastur heima hjá sér með konunni sinni og börnunum þeirra Jack sem er 17 ára og Darby sem er 12 ára.
Bandaríski leikarinn Michael B. Jordan var valinn sá kynþokkafyllsti í heimi í fyrra. Tónlistarmaðurinn John Legend fékk nafnbótina árið þar áður. Leikarinn Idris Elba hlaut heiðurinn árið 2018 og tónlistarmaðurinn Blake Shelton árið 2017.