Hótelerfinginn Paris Hilton og áhættufjárfestirinn Carter Reum gengu í hjónaband í gær, á degi einhleypra. Parið trúlofaði sig fyrr á árinu en athöfnin fór fram í Los Angeles. Þetta er fyrsta hjónaband Hilton sem er fertug.
Fjölmargar stjörnur voru í brúðkaupinu en á meðal gesta voru raunveruleikastjarnan Kim Kardashian og söngkonan Paula Abdul að því er fram kemur á vef People. Á dagskrá eru tvær brúðkaupsveislur í viðbót en Hilton er þekkt fyrir að kunna að skemmta sér og starfar sem plötusnúður.
Verið er að gera raunveruleikaþætti um stjörnuna sem heita Paris in Love. „Ég vil að aðdáendur mínir sjái hvernig ég fann draumaprinsinn minn,“ sagði Hilton nýlega í sjónvarpsþætti. Hún ætlar líka að leyfa aðdáendum sínum að fylgjast með brúðkaupinu sínu.
Parið byrjaði saman í nóvember árið 2019. Reum bað Hilton á afmælinu hennar í febrúar. Hilton hefur verið mjög opin um sambandið og framtíðaráform þeirra. Þau eru byrjuð að undirbúa barneignir.
Hilton birti mynd af sér í brúðarkjól á Instagram og sagði að hún væri nýgift.