Til stóð að halda RISA Queen tónleikaveislu með söngvaranum Marc Martel og einni vinsælustu Queen tribute hljómsveit fyrr og síðar, The Ultimate Queen Celebration í Laugardalshöll föstudaginn 26. nóvember.
Í ljósi hertra samkomutakmarkana sem kynntar voru í dag og eiga að gilda næstu þrjár vikur hefur sú ákvörðun verið tekin að færa tónleikana til apríl 2022.
„Í ljósi tilkynninga stjórnvalda í dag um hertar samkomutakmarkanir er ljóst að ógerlegt er að halda tónleikana, sem eru nær uppseldir,” segir Björgvin Þór Rúnarsson, eigandi Nordic Live Event.
„Við vorum á fundi núna í morgun í Laugardalshöll að fara yfir stöðuna og sjá fyrir okkur að halda tónleikana eftir tvær vikur miðað við allar reglur um hraðpróf, grímuskyldu og svo framvegis. Eftir þann fund voru hertar samkomutakmarkanir tilkynntar og þó að við líkt og allir aðrir í viðburðageiranum séum fullmeðvituð um samfélagslega ábyrgð okkar allra, þá er niðurstaðan mjög sorgleg fyrir okkur og alla tilvonandi gesti okkar,” segir Björgvin Þór. Tónleikunum hefur verið frestað áður vegna samkomutakmarkana tengdum COVID-19.
„Viðburðageirinn hefur verið í þvílíku jójó-i í tæplega tvö ár og frestun viðburða felur í sér mikið tjón, sérstaklega þegar svona stutt er í þá. Við viljum þakka öllum gestum okkar fyrir þolinmæðina og við erum orðin mjög óþreyjufull að halda tónleika okkar.“