Mark Zuckerberg, forstjóri Meta og stofnandi Facebook, er hæstnægður með nýja auglýsingu Íslandsstofu þar sem gert er stólpagrín að honum.
Í auglýsingunni fer leikarinn Jörundur Ragnarsson með hlutverk „Zack Mossbergsson” og sýnir að ekki er þörf á sýndarveruleika til að njóta íslenskrar náttúru.
„Magnað. Ég þarf að heimsækja Icelandverse bráðum. Ánægður með að þú notaðir sólarvörn líka,” skrifar Zuckerberg við færslu Íslandsstofu á Facebook þar sem auglýsingin er sýnd.
Íslandsstofa svarar síðan Zuckerberg og segir hann ávallt velkominn í Icelandverse.
Facebook breytti nýverið um nafn og heitir nú Meta. Þá kynnti fyrirtækið einnig til leiks sýndarveruleikaheim, Metaverse. Auglýsing Inspired By Iceland, sem er í umsjón Íslandsstofu, vísar með augljósum hætti í kynningarmyndbönd Meta.