„Við gróðursetjum eitt tré fyrir hverja mynd af gæludýri,“ er loforð sem instagramreikningurinn Plant A Tree Co. hefur gefið á samfélagsmiðlinum á dögunum og hafa myndir af loðnum sætum dýrum fyllt tímalínu margra.
Loforðið gaf fyrirtækið í gegnum nýtt gagnvirkt „límmiða“-kerfi á Instagram sem notendur geta sett í story hjá sér. „Límmiðinn“ hefur slegið í gegn á heimsvísu og hafa yfir fjórar milljónir birt myndir af sætum gæludýrum sínum.
Bandaríska dagblaðið Washington Post skoðaði hvort eitthvað væri raunverulega á bak við hið græna loforð sem Plant A Tree Co. gaf og komst að því að ólíklegt væri að fjórar milljónir trjáa yrðu gróðursettar.
„Við birtum þetta, en bara í tíu mínútur. Við áttuðum okkur á því hvað þessi færsla gæti gert og að við hefðum ekki burði í að standa við loforðið,“ segir í færslu sem Plant A Tree Co. birti í vikunni.
„Við héldum að lítill hluti fylgjenda okkar myndi taka þátt í þessu og að það myndi telja nokkur hundruð tré, í mesta lagi, en við tókum eftir að það varð ekki svo,“ sagði Zack Saadioui í viðtali við Washington Post, en hann sagðist vera maðurinn á bak við instagramreikninginn.
Í tilkynningu sagðist hann ekki hafa áttað sig á því hvernig hið nýja gagnvirka límmiðakerfi Instagram virkaði þegar hann setti átakið af stað.
„Við vildum bara skoða hvernig límmiðarnir á Instagram virkuðu og ákváðum að nota það á skemmtilegan hátt sem gerði eitthvað fyrir umhverfismál í leiðinni. Þannig að við birtum þetta án þess að vita hvernig það virkaði,“ segir í tilkynningunni.
Á vef Plant A Tree Co. segir að fyrirtækið hafi gróðursett 6.500 tré hingað til, en þar kemur ekki fram hvar í heiminum, hvenær eða hver gróðursetti trén.
Þetta er ekki í fyrsta skipti sem fyrirtækið hefur verið sakað um að efna ekki loforð sín um að gróðursetja tré. Árið 2019 var reikningurinn á Instagram harðlega gagnrýndur fyrir að lofa að gróðursetja tré fyrir hvert skipti sem einhver endurbirti eitthvað af reikningi þeirra. Engin tré voru gróðursett þá.
Saadioui segir við Washington Post að sér hafi þótt miður að ekki skyldi takast að efna loforðið árið 2019. Það hafi haft neikvæð áhrif á vörumerkið sem hann vonaðist til að seinna meir gæti gert eitthvað gott fyrir jörðina.
„Við tókum þetta til greina, tókum færsluna úr birtingu og sögðum að væri ekki hægt að efna loforðið,“ sagði Saadioui.
Nú hefur Plant A Tree Co. hafið söfnun fyrir umhverfisverndarsamtökin Trees for the Future og biður um peninga í stað sætra mynda af gæludýrum.
„Þrátt fyrir að geta ekki gróðursett fjórar milljónir trjáa getum við notað þessa vitundarvakningu til góðra verka,“ segir í færslunni.