Bara tónlistarmaður og hlýði því kalli

„Ég nýt þess mjög að búa við sjóinn,“ segir Damon …
„Ég nýt þess mjög að búa við sjóinn,“ segir Damon Albarn sem er hér við heimilið í Reykjavík, með Esjuna sem hann syngur um í baksýn. mbl.is/Einar Falur

„Hefur eitthvað gerst síðustu átján mánuði? Ég mun halda tónleika hér í Hörpu eins og til stóð, og það er stutt í þá!“ segir tónlistarmaðurinn Damon Albarn brosandi þar sem við sitjum í stofu hans í útjaðri Reykjavíkur með tignarlegt útsýni yfir Faxaflóann og Esjuna.

Hann er að vísa til þess að síðast þegar við hittumst heima hjá honum í janúar 2020 var fjölmenn hljómsveit þar með honum í stofunni, strengjaleikarar og blásarar, að æfa upp nýtt tónverk, The Nearer the Fountain, More Pure the Stream Flows, sem til stóð að flytja á tónleikaferðalagi og hljóðrita – lokatónleikarnir áttu að vera á Listahátíð 2020 í Hörpu.

Þessi heimsþekkti tónlistarmaður útskýrði fyrir mér í samtalinu að tónverkið væri innblásið af kynnum hans af Íslandi og búsetu hér síðustu þrjá áratugi en stóran hluta þess tíma hefur hann átt hér annað heimili og útsýnið frá því til hafs var einn helsti innblástur verksins.

mbl.is/Einar Falur

En svo skall á heimsfaraldur, tónleikaferð Damons var frestað og í einangrun breyttist verkið og varð að 11 laga plötu. Heiti margra laganna og textar vísa til upprunans og stemningarinnar þarna í stofunni í Staðahverfi Reykjavíkur. Eitt heitir einfaldlega „Esja“ en önnur til að mynda „Royal Morning Blue“ og „Darkness to Light“.

Platan nýja kom út 12. nóvember. Heitið er það sama og á upphaflegu tónverki en heiti þess er sótt í ljóðið Love and Memory eftir John Clare. En það er ekki bara tónverkið sem hefur breyst síðan við hittumst síðast í stofunni því nú hefur Damon fengið íslenskan ríkisborgararétt og er kominn með íslenskt vegabréf – má því nú kalla hann bresk-íslenskan listamann.

Ég þurfti að tjá mig

„Að vissu leyti hefur ekkert breyst, ég fer aftur af stað með sömu tónlistarmönnunum og verð með þeim á ferðinni hér á næsta ári,“ segir Damon um væntanlega tónleikaferð með nýju tónlistina. Hann heldur tólf tónleika í tíu þekktum tónlistarhöllum í Evrópu í ferbrúar og mars og þeir síðustu verða í Eldborgarsal Hörpu 11. mars.

mbl.is/Einar Falur

„Það sem hefur breyst í tónlistinni er að í landslagi hennar verða nú fullmótuð lög í stað langrar hljómkviðu. Markmiðið er það sama og áður en við vorum búin að semja svo mikið efni að vinna úr, sem ég svo gerði, annars má alveg segja að ekkert hafi gerst í millitíðinni!“ Damon hlær og hristir höfuðið, því vissulega skall heill heimsfaraldur á okkur.

„Metnaðurinn og markmiðið með þessari tónlist er sá sami og áður,“ bætir hann svo við. „Ég þurfti bara að halda áfram og móta þetta úrval laga úr efniviðnum, ég þurfti að tjá mig! Og þetta er útkoman.“

Samstarf við Einar Örn

Lögin á nýju plötunni eru grípandi og stemningsrík og þau sem hafa komið út á smáskífum á undanförnum mánuðum hafa vakið athygli og lof í alþjóðlegum tónlistarmiðlum. Þá er Damon aftur farinn að koma fram á tónleikum eftir einangrunartíma faraldursins og til að mynda lofuðu breskir miðlar mjög tónleika sem hann hélt í hinu fræga breska leikhúsi The Globe í vikunni áður en við hittumst. Þar fór hann um víðan völl í lagavalinu, segist hafa blandað nokkrum nýju laganna inn í gamla lagasafnið sitt.

„Í tónleikaferðinni sem ég lýk hér í Hörpu í mars verður áherslan hins vegar mun meira á það sem varð til í sköpunarferlinu með hljómsveitinni hér í stofunni hjá mér,“ segir hann.

En vísar þessi nýja plata til einhvers framhalds eða sér Damon hana sem einstakt verk á ferlinum?

„Það er engin leið að segja til um það. Ég hugsa aldrei um verkin mín sem hluta af seríu,“ svarar hann. Bætir svo við að samtímis útgáfu plötunnar komi út í deluxe-pakka útgáfunnar um tuttugu mínútna langt verk sem þeir Einar Örn Benediktsson vinur hans og Kaktus sonur Einars hafi skapað í sameiningu. Það nefnist „Huldufólk“ – „The Wheather People“.

„Og þar er Einar Örn svo sannarlega í sínu besta seiðkarls-formi! Það verk er að stórum hluta á íslensku og í því notum við hluta af efninu sem varð til hér í stofunni. Ég á von á því að við munum líka flytja það á tónleikunum í Hörpu, sem ég hlakka mikið til. Þar get ég þakkað formlega fyrir mig, fyrir að fá að vera einn íbúa þessarar dásamlegu eyju.“

Blæs lífi í stöku lík

Á tónlistarferli sem spannar nú á fjórða áratug hefur Damon Albarn komið mjög víða við. Hann sló fyrst í gegn sem söngvari Blur og hefur síðan starfrækt hljómsveitirnar Gorillaz og The Good, The Bad & The Queen. Þá hefur hann átt í allrahanda samstarfi við aðra listamenn. Nú þegar fram undan er tónleikaferð tengd nýju plötunni, verður það eina verkefnið sem hann sinnir á þeim tíma?

„Mmmm...“ segir hann hugsi og hristir svo höfuðið rólega, sem þýðir líklega neitun. „Þetta verk er tilbúið og ég sit ekki bara með hendur í skauti þangað til ég hitti hljómsveitina í byrjun næsta árs, og við förum að æfa. Nei, ég hef margt annað að gera þangað til!“ segir hann og brosir. „En nú er ég að kynna plötuna og finnst það skemmtilegt, enda er ég stoltur af henni.“ Og vissulega má sjá að Damon gefur sig allan í kynninguna á verkinu; þegar ég kom að hitta hann voru fyrir í stofunni blaðamaður og ljósmyndari á vegum The Sunday Times og tóku meðal annars myndband af honum leika þar á píanóið andspænis Esjunni.

„Já, tónlistarsköpunin heldur alltaf áfram,“ segir hann. „Ég á til dæmis í samstarfi um annað verkefni með hljómsveit í Amsterdam, Gorillaz-hljómsveitin heldur sífellt áfram... En það er öðruvísi því ég hef unnið með svo mörgum í því hljómsveitarverkefni gegnum árin. Hljómsveitin er í raun bara ég og svo koma inn samstarfsmenn, ólíkar raddir; Gorillaz er allt öðruvísi skepna en aðrar sem ég hef komið að.

Ég hef alltaf farið þangað sem verkefnin og sköpunarkrafturinn leiða mig. Ég er bara tónlistarmaður og hlýði því kalli! Mörgum hugmyndum sem berast og óskum um þáttöku eða eitthvað nýtt svara ég játandi en á öðru hef ég ekki áhuga, eins og því að vekja líkin mín til lífins.“ Hann glottir og ég geri ráð fyrir því að hann eigi við Blur, hljómsveitina sem hann sló heldur betur í gegn með.

„Það kemur þó fyrir að ég blæs lífi í stöku lík, en eitt það besta við þetta starf er að maður er alltaf að læra í nýju samstarfi, það felast alltaf nýjar áskoranir í því að leika með öðru fólki. Að spila bara einn finnst mér of auðvelt og það er gaman að spila ekki alltaf með þeim sömu.“

Ótrúlega falleg gjöf

Damon sagði í byrjun samtalsins að ekki hefði margt breyst hjá sér síðan við hittumst rétt fyrir faraldurinn. En í millitíðinni er hann samt orðinn íslenskur ríkisborgari.

„Það er satt – það var ánægjulegt og óvænt! Ótrúlega falleg gjöf.

Nú er ég kominn með íslenskt vegabréf og það var mjög gleðilegt að koma að þessu sinni til Íslands á íslensku vegabréfi. En írónían var samt sú að það tók mig lengri tíma að komast gegnum flugstöðina en ef ég hefði notað breska vegabréfið því ég varð að fara í auka Covid-prufu.“ Hann hlær og bætir við: „En svona getur fáránleiki birst í skrifræði og aðskilnaði þjóða.“

Þegar hann heldur í tónleikaferðina í febrúar, verður það sem Breti eða Íslendingur?

„Ég mun prófa að nota íslenska vegabréfið. Og ég hlakka til að fljúga aftur til Bretlands sem Íslendingur, og sjá hvort mér verður hleypt inn í landið!“

Damon segist ekki vita vel hvað breytist við að hafa tvöfalt ríkisfang. „En eitt mjög praktískt atriði er þó að ég þarf ekki lengur að fá vinnuáritun upp á atvinnuleyfi til að geta komið fram á meginlandi Evrópu eins og ég þyrfti annars að gera sem Breti eftir Brexit. Það var alls ekki ástæðan fyrir því að ég sótti um að fá íslenskt vegabréf en ástandið hvað þessi samskipti Breta og Evrópu varðar í dag er hryllingur. Og svo hafa bresk stjórnvöld í dag nákvæmlega enga samkennd með listum. Sem er skrýtið því menningin hefur alltaf verið ein af undirstöðum bresks efnahagslífs og sjálfsmyndar þjóðarinnar.“

Að lokum berst tal okkar aftur að einangrun veirufaraldursins. Og ég spyr hvar hann hafi haldið sig.

„Ég hef mestmegnis verið við hafið, í Devon. Það er alls ekki eins og hér en þar eru klettar við ströndina og ég er þar líka í nánum tengslum við náttúruna. Ég nýt þess mjög að búa við sjóinn.“ Hann þagnar og horfir yfir víðan Faxaflóann sem breiðir úr sér fyrir framan okkur. Segir svo: „Hafið er orðið mér nauðsynlegt – og hér er það!“

Damon Albarn heldur tónleika í Hörpu 11. mars.
Damon Albarn heldur tónleika í Hörpu 11. mars.

Íslandsupplifanir á nýrri plötu

Ný sólóplata bresk-íslenska tónlistarmannsins Damons Albarns, „The Nearer The Fountain, More Pure The Stream Flows“, kemur á markað á morgun, 12. nóvember. Damon hóf vinnuna við hana fyrir rúmlega tveimur árum og var þá um heildstætt tónverk að ræða sem hann hugðist flytja með strengjasveit og hljómsveit á tónleikum, og áttu þeir síðustu að vera í Hörpu. Verkið er byggt á upplifunum Damons af Íslandi og íslenskri náttúru, bæði tónlist og textar, en hann hefur lengi átt heimili hér á landi og fékk fyrir skömmu íslenskan ríkisborgararétt. Heiti plötunnar er sótt í ljóðið „Love and Memory“ eftir John Clare.

Þegar heimurinn hrökk í lás vegna kórónuveirufaraldursins hélt Damon áfram að vinna í tónlistinni. Hún þróaðist út í 11 laga svítu þar sem hann segist halda áfram að kanna hugmyndir um viðkvæmni, missi og endurfæðingu. Damon Albarn mun ásamt stórri hljómsveit flytja lögin af nýju plötunni á tónleikum í Eldborgarsal Hörpu 11. mars næstkomandi en umgjörð tónleikanna byggist á sérhönnuðu sjónlistaverki þar sem samstarfsmaður Damons til langs tíma, Einar Örn Benediktsson, leggur hönd á plóg. Einar og Kaktus sonur hans hafa einnig unnið að tónverki með Damon sem gefið verður út í dag og fylgir með nýju plötunni.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Láttu það ekki setja þig úr jafnvægi, þótt eitt og annað gangi á í kring um þig. Mundu að horfa á það jákvæða í lífinu.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Ragnheiður Gestsdóttir
2
Hugrún Björnsdóttir
3
Anna Margrét Sigurðardóttir
4
Eva Björg Ægisdóttir
5
Torill Thorup
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Láttu það ekki setja þig úr jafnvægi, þótt eitt og annað gangi á í kring um þig. Mundu að horfa á það jákvæða í lífinu.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Ragnheiður Gestsdóttir
2
Hugrún Björnsdóttir
3
Anna Margrét Sigurðardóttir
4
Eva Björg Ægisdóttir
5
Torill Thorup