Sýningar hófust fyrir skömmu í Bíó Paradís á nýrri íslenskri heimildarmynd, Hvunndagshetjur, sem fjallar um fjórar konur af erlendum uppruna sem búið hafa hér á landi í 20 ár. Konurnar, þær Karolina Von Mrozik Gliszczynska frá Póllandi, Ayse Ebru Gurdemir frá Tyrklandi, Maria Victoria Ann Campbell frá Jamaíku og Zineta Pidzo Cogic frá Bosníu . Hafa þær allar merkilega sögu að segja og þá m.a. af því hvað varð til þess að þær fluttu til Íslands.
Leikstjóri myndarinnar er Magnea Björk Valdimarsdóttir og er hún einnig handritshöfundur ásamt Maríu Leu Ævarsdóttur. Þær eru líka framleiðendur myndarinnar ásamt Júlíusi Kemp.
Magnea er menntuð leikkona og leiklistarkennari, hefur auk þess starfað sem leiðsögumaður í fjöldamörg ár og starfar nú í Hörpu. Hún segist hafa snúið sér frá leiklist að kvikmyndagerð og gert stuttmyndir en Hvunndagshetjur er fyrsta heimildarmynd hennar í fullri lengd. Myndin var frumsýnd á Alþjóðlegri kvikmyndahátíð í Reykjavík, RIFF, í október síðastliðnum og er nú komin í Bíó Paradís þar sem hún verður sýnd í þessum mánuði. Hún verður einnig sýnd á hátíðum erlendis og hefur hlotið verðlaun, Magnea var valin besta leikstýran á Barcelona International Film Festival fyrir skömmu og myndin var einnig valin heimildarmynd mánaðarins á hátíð í París.
Magnea segir heimildarmynd á borð við þessa að miklu leyti mótast á klippiborðinu og handritið því í raun beinagrind sem á eftir að fá kjöt á beinin. „Ég er mjög virkur klippari, hef reynslu af því að fara út og filma og klippa. Ég hef gert það sjálf með mínar myndir en núna fékk ég styrk frá Kvikmyndasjóði og var með tökulið með mér, sem var auðvitað lúxus.“
Í myndinni má sjá viðtöl við fjórar fyrrnefndar konur, án þess að rödd Magneu heyrist, og segir hún að konurnar séu með ólíkan bakgrunn en tali allar góða íslensku og séu vel inngrónar í íslenskt samfélag.
En hvernig urðu þessar fjórar konur fyrir valinu? „Þær eru allar vinkonur mínar fyrir, ég bjó til stóran saumaklúbb með erlendum vinkonum og þessar urðu fyrir valinu fyrir myndina en þetta var fjögurra ára ferli, frá byrjun rannsóknarferlis til fæðingar myndarinnar,“ svarar Magnea. „Ég hef mikinn áhuga á stöðu útlendinga, hef sjálf verið útlendingur þegar ég bjó á Spáni og í Frakklandi og hef mikið fylgst með málefnum hælisleitenda og útlendinga á Íslandi. Ég hef oft aðstoðað fólk sem hefur orðið fyrir óréttlæti. Þannig að drifið hjá mér er bæði réttlætiskenndin – mér finnst að innflytjendur ættu að fá meiri fókus á Íslandi – og svo hef ég líka verið að gera myndir um miðbæjarkaraktera sem fá alla jafna ekki fókus. Mér finnst sjarmerandi að fara listræna leið að því að rannsaka hvunndaginn með myndatöku Anníar Ólafs og tónlist Ólafar Arnalds auk alls hópsins,“ segir Magnea.
„Öll þurfum við að bursta tennur, kaupa í matinn og setja í þvottavél og öll eigum við okkar forsögu og þessar konur eiga sér sérstaklega áhugaverðar og ólíkar forsögur. Þær eru aldar upp í fjórum mjög ólíkum menningarheimum og koma hingað norður á hjara veraldar af ólíkum ástæðum,“ segir Magnea.
Magnea segir myndina fjalla um hvernig það sé yfirhöfuð að vera útlendingur og því geti allir tengt við myndina. Hún sé því ekki bundin við Ísland. „Þetta eru pælingar um af hverju við erum með landamæri, af hverju við erum útlendingar, af hverju við notum þetta orð og hvernig við getum tekið betur á móti fólki og hjálpað því að aðlagast,“ segir Magnea um efni myndarinnar og einnig sé leitað svara við spurningunni hvenær maður hætti að vera útlendingur. Hún bendir í því sambandi á pólska vinkonu sína í myndinni, Karolinu, sem segist bæði tala með hreim á íslensku og pólsku. Þó hún hafi búið hér á landi í 20 ár sé hún enn spurð að því hvaðan hún sé.
Magnea segist hafa verið fluga á vegg í viðtölum myndarinnar því hún hafi viljað gefa konunum rödd. „Uppbyggingin er þannig, þó ég sé náin vinkona þeirra,“ útskýrir hún og segir vinskapinn hafa styrkst enn frekar með þessum samtölum.
Þegar blaðamaður spyr hvort þetta sé hlutlaus heimildarmynd svarar Magnea því til að ekki sé til neitt sem heiti hlutlaus heimildarmynd. „Leikstjóri notar alltaf eigin lífsreynslu og skoðanir og þetta er alltaf sköpunarverk. Þú þarft alltaf að nota þína rödd og ég held að það sé því ekki til hlutlaust listaverk,“ segir hún og blaðamaður getur tekið undir það. Einhverjar ákvarðanir þarf jú alltaf að taka í hinu listræna ferli, hvert svo sem listaverkið er.
„Ég er með minn klippistíl og sterka rödd, ákveðnar skoðanir en ég er ekki með áróður, leyfi fólki að gera upp við sig sjálft hvað því finnst. Það er mikilvægt að bera virðingu fyrir viðfangsefninu og áhorfendum svo þeir geti gert upp hug sinn sjálfir,“ segir Magnea.