Kryddpíurnar Mel B, Geri Halliwell og Emma Bunton voru nappaðar fyrr í vikunni þegar þær áttu fund á Mandeville-hótelinu í Lundúnum. Þrálátur orðrómur hefur verið á kreiki um að þær stöllur séu að skipuleggja endurkomu stúlknasveitarinnar Spice Girls. Fundur þessi kann að ýta undir þann orðróm og jafnvel staðfesta hann.
Þær þrjár mættu hver í sínu lagi og samkvæmt sjónarvottum var Mel C viðstödd fundinn í gegnum fjarfundabúnaðinn Zoom. Victoria Beckham var hvergi sjáanleg, Daily Mail greinir frá.
Kryddpíurnar komu saman á tónleikum í Bretlandi árið 2019 eftir áratuga langa fjarveru. Nú eru þær sagðar vera að skipuleggja tónleikaferðalag víðs vegar um heim sem áætlað er að hefja árið 2023. Allt er þetta háleynilegt en augljóst þykir að eitthvað sé í sigtinu. Er undirbúningsferlið sagt stoppa á Victoriu Beckham, þar sem hún er sögð efins um endurkomuna, en hinar fjórar grátbiðja hana um að slá til.