Förðunarfræðingarnir Heiður Ósk Eggertsdóttir og Ingunn Sigurðardóttir verða álitsgjafar í þáttunum Make Up sem sýndir verða á Sjónvarpi Símans eftir áramót. Heiður segir þær Ingunni gríðarlega spenntar að takast á við þetta verkefni en þær stýrðu áður þáttunum HI Beauty sem sýndir voru á Vísi.is.
Heiður og Ingunn hafa báða viðamikla reynslu í förðunarbransanum og eru meðal fjögurra eigenda Reykjavík Make Up School sem hefur útskrifað yfir 800 förðunarfræðinga frá upphafi.
„Við erum bara ótrúlega spenntar að taka þátt í þessu verkefni,“ sagði Heiður í viðtali við mbl.is. Heiður og Ingunn verða álitsgjafar og meta vinnu keppenda í þáttunum.
Make Up eru þættir sem, líkt og nafnið gefur til kynna, snúast um förðun. Þá munu alls átta keppendur spreyta sig á mismunandi verkefnum í hverjum þætti. Leikkonan Kristín Pétursdóttir mun stýra þáttunum.
„Við erum líka svo ótrúlega spenntar að fá loksins förðunarþátt í íslenskt sjónvarp. Það er nokkuð sem hefur ekki verið gert áður. Förðunarbransinn hefur stækkað svo mikið undanfarin ár og aldrei verið vinsælli,“ segir Heiður.
Fyrir heimsfaraldur voru þær Ingunn með námskeið þar sem fólk gat lært að farða sig sjálft, Kvöldstund með HI Beauty, og var námskeiðið gríðarlega vinsælt. „Einhvern veginn tókst okkur að fylla 25 námskeið og kenna yfir 300 manns að farða sig,“ segir Ingunn.
Þegar heimsfaraldurinn skall á færðu þær sig yfir á Instagram og hafa miðlað fræðslu þar. HI Beauty-þættirnir spruttu svo upp frá því.
„Það verður ótrúlega spennandi að sjá keppendurna og verður vonandi hvatning fyrir einhverja snillinga að sýna hvað í þeim býr á þessu sviði,“ segir Heiður en teymið í kringum þættina er nú í óðaönn að fara yfir umsóknir um að komast í þættina. Áhugasöm geta sent tölvupóst á makeup@siminn.is.