Charlene prinsessa af Mónakó mun verða frá opinberum störfum í nokkrar vikur. Þá mun hún ekki taka þátt í fagnaðarhöldum í höllinni á föstudag, þjóðhátíðardag Mónakó. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá höllinni.
Í tilkynningunni segir að prinsessan þurfi á mikilli hvíld að halda og þyrfti að draga sig í hlé í nokkrar vikur. „Hún hefur glímt við heilsubresti undanfarna mánuði, hún er nú að ná sér eftir veikindin og mun halda því áfram næstu vikurnar,“ segir í tilkynningunni.
Charlene prinsessa er eiginkona Alberts prins en þau gengu í það heilaga árið 2011. Hún hefur undanfarna mánuði dvalið í heimalandi sínu Suður-Afríku. Hún kom aftur til Mónakó í síðustu viku.