Ofurfyrirsætan Emily Ratajkowski er orðin hundleið á því að vera kyntákn. Þó svo að óaðfinnanlegur og eftirsóknarverður líkamsvöxtur hennar hafi fleytt henni langt í lífinu þá var það aldrei hennar stefnumark.
„Ég hef verið of kynþokkafull frá 13 ára aldri,“ ritaði Ratajkowski í bók sem hún gaf nýverið út og nefnist My body. Fréttaveitan The Sun greindi frá. „Ég var einu sinni send heim af skóladansleik fyrir að vera í of ögrandi fatnaði,“ minnist hún einnig. En bók hennar er eins konar feminísk ævisaga þar sem hún sviptir hulunni af ýmsum misjöfnum uppákomum á ferlinum sem ein eftirsóttasta fyrirsæta heims.
„Foreldrar mínir voru mjög uppteknir af útliti mínu. Það skipti þá miklu máli, sérstaklega mömmu, að ég væri álitin falleg.“ Ferill Emily Ratajkowski sem fyrirsæta hófst þegar hún var tólf ára. „Ég var bara barn,“ segir hún í bókinni. Strax við upphaf ferilsins varð hún vör við athygli frá fullorðnum karlmönnum. „Fegurð var leið fyrir mig til þess að skera mig úr - vera sérstök. Þegar ég náði að vera sérstök þá fann ég mest fyrir ást frá foreldrum mínum í minn garð.“
Minnist hún þess, til að mynda, þegar hún leitaði á náðir umboðsmannaskrifstofu ung að aldri. Segir hún einn umboðsmannanna, sem var viðstaddur fundinn, hafa flett í gegnum ferilskrá hennar og látið ósmekkleg ummæli falla án þess að blikna. Segist Ratajowski hafa tekið þeim sem viðurkenningu þegar annar kvenkyns umboðsmaður kinkaði kolli og samþykkti þar með ummælin. „Ég var svo ringluð og ráðvillt. Ég vissi ekki alveg hvernig ég átti að nota þokkann minn á réttan hátt,“ segir hún og vonar að bókaskrifin gefi innsýn inn í myrkar hliðar fyrirsætubransans.
Hér má sjá Emily Ratajkowski 13 ára að aldri.