Elísabet II Bretlandsdrotting sneri aftur til starfa í dag. Hennar hátign þurfti að taka sér frí frá konunglegum skyldum um helgina vegna tognunar í baki.
Drottningin tók á móti Sir Nick Carter hershöfðingja í eikarherberginu í Windsor kastala í dag. Er þetta í fyrsta skipti í töluverðan tíma sem drottningin tekur á móti gesti í eigin persónu en í faraldrinum hefur hún tekið á móti gestum í gegnum fjarfundabúnað.
Drottningin hefði átt að taka þátt í minningarathöfn til heiðurs látinna breskra hermanna á sunnudag en snemma morguns sama dag sendi Kensingtonhöll frá sér tilkynningu þess efnis að drottningin væri tognuð í baki og gæti ekki tekið þátt.
Sagði í tilkynningunni að drottningunni þætti þungbært að þurfa að hætta við athöfnina en hún hefur verið henni hjartans mál undanfarin ár.
Mikið hefur verið fjallað um heilsu hinnar 95 ára gömul drottningar undanfarnar vikur en hún gisti eina nótt á sjúkrahúsi í lok október. Læknar gáfu henni þau tilmæli að hvíla sig í tvær vikur. Þá dvaldi hún á landareign sinni í Sandringham og sást meðal annars undir stýri.