Leikkonan Olivia Munn á von á sínu fyrsta barni með uppistandaranum John Mulaney. Parið hafði ekki verið saman lengi þegar Munn varð ólétt. Stutt er síðan Mulaney gekk í gegnum skilnað en leikkonan segir í viðtali við Los Angeles Times að fólk viti ekki neitt um samband þeirra.
„Það er ekki nýtt fyrir mér að fólk hafi rangt fyrir sér og kjaftasögurnar gangi hömlulaust í eina átt,“ segir Munn í viðtalinu. Mulaney skildi við eiginkonu sína til sjö ára, Önnu Marie Tendler, í febrúar á þessu ári.
„Fólk heldur að það viti svo mikið um samband okkar. En í raunveruleikanum gerir það það ekki. Það er er ekki séns að það viti hvernig sambönd hans voru og hvernig samband okkar er.“
Munn segist eiga erfitt með að ákveða hversu mikið hún eigi að tjá sig um orðróminn um samband þeirra og hvenær sambandið byrjaði raunverulega. „Ef ég reyni að segja eitthvað á ég í hættu að vera sökuð um að vera sóðaleg og segja ekki satt,“ sagði hún og gefur í skyn að það sé best fyrir hana að þegja.