Fyrirsætan Iman fékk 26 ár með eiginmanni sínum, tónlistarmanninum David Bowie. Bowie lést árið 2016 en Iman segist enn líta á Bowie sem eiginmann sinn og ætlar ekki að ganga í hjónaband aftur.
Ofurfyrirsætan frá Sómalíu kynntist stjörnunni David Bowie á blindu stefnumóti í Los Angeles. „David sagði að það hefði verið ást við fyrstu sýn,“ sagði Iman í viðtali við People. „Það tók mig nokkra mánuði en ég komst þangað.“
„Ég ætlaði aldrei að flytja þangað,“ sagði hún um þá afdrifaríku ákvörðun að flytja til Los Angeles árið 1990. „Þetta er ekki ein af mínum uppáhaldsborgum. Hún er svo gríðarlega stór en ég trúi því núna að þetta voru örlög mín. Örlög mín kölluðu á mig svo ég gæti hitt David.“
Iman og David Bowie fluttu síðar til New York þar sem Bowie gat falið sig í uppáhaldsbókabúðunum sínum og fylgt dóttur þeirra Alexöndru í skólann.
Eftir fyrsta stefnumótið flaug Iman til Parísar til þess að koma fram á tískusýningu Thierry Mugler. Þegar hún mætti á hótelherbergið var það fullt af blómum. Þegar hún kom til baka sótti hann hana á flugvöllinn. „Og þannig byrjaði þetta,“ sagði Iman um ástarævintýri þeirra.
Hjónin giftu sig í Flórens á Ítalíu þann 6. júní árð 1996 og var hjónaband þeirra eitt það farsælasta í heimi þeirra ríku og frægu. Bowie lést í byrjun árs 2016 69 ára að aldri. Hún segir að sumir dagar séu erfiðari en aðrir en segir minningarnar bara vera góðar. „Stundum verð ég að minna mig á að við áttum 26 ár saman.“
„Nei ég ætla ekki gera það,“ segir Iman þegar hún er spurð að því hvort hún ætli að ganga aftur í hjónaband. „Nei hann er ekki látinn eiginmaður minn. Hann er eiginmaður minn,“ leiðrétti hún manneskju sem talaði um Bowie sem látinn eiginmann hennar fyrir nokkrum árum.