Fjölbreytt fjölþætt Tunglleysa

„Við vinnum mikið hvor í sínu lagi og sendum síðan …
„Við vinnum mikið hvor í sínu lagi og sendum síðan hugmyndir á milli,“ segir Þorkell um samstarf þeirra Pans Thorarensen. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Félagarnir Pan Thorarensen og Þorkell Atlason hafa brallað ýmislegt í tónlist á liðnum árum, bæði í samkrulli og eins í hljómsveitinni Stereo Hypnosis með Óskari Thorarensen. Fyrir stuttu kom út breiðskífa þeirra Pans og Þorkels, samstarf sem þeir nefna Tunglleysu.

Samstarf þeirra Pans og Þorkels hóft 2012 og hefur staðið síðan, annars vegar í Stereo Hypnosis, eins og getið er, og hins vegar fyrst í Ambátt og nú Tunglleysu. Þeir segjast ekki hafa séð það fyrir að samstarfið myndi standa svo lengi, en það lifi vegna þess hve vel það gengur. „Við vinnum mikið hvor í sínu lagi og sendum síðan hugmyndir á milli,“ segir Þorkell.

„Það má líka segja að ákveðnar hugmyndir kviknuðu strax í byrjun og við höfum verið að þróa þær allt að Tunglleysu sem hefur haldið þessu verkefni gangandi. Síðan er alltaf gott að sinna öðrum verkefnum, við vinnum þetta mikið í skorpum og sinnum öðru þess á milli.“

— Platan Flugufen með Ambátt kom út 2016. Var þá ljóst að þið mynduð gera aðra plötu?

„Eftir Flugufen plötuna var aldrei spurning að það kæmi önnur,“ segir Pan, „það lágu fyrir nokkrir grunnar og hugmyndir að þeirri næstu. Við spiluðum líka töluvert erlendis á þessum tíma og margar hugmyndir einnig komu þaðan.

Þegar mynd fór að koma á plötuna þá reyndum við að sjá fyrir okkur hvaða raddir myndu passa inn í hljóðheiminn. Sem betur fer tóku allir sem við höfðum samband við mjög vel í að vera með, þetta eru listamenn sem við höfum kynnst á ferðalögum og unnið með í ýmsum verkefnum, svo bættust við Katrína og Júlía Mogensen og Borgar Magnason. Tim Sarhan var okkar fyrsti kostur sem trommuleikari, sáum hann fyrst á tónleikum með Studnitzky & Emilönu Torrini, Sebastian Studnitzky var með okkur á Flugufen eins og Katrína. Tónskáldið Claudio Puntin þekktum við frá Berlín, höfum nokkrum sinnum spilað saman þar. Og þegar Mari Kalkun tók upp sínar upptökur þá tók verkefnið á sig nýja mynd og fókusinn var kominn.

Við tókum svo upp grunna í Berlín vor og sumar 2018 og síðan voru upptökur kláraðar hér heima, Albert Finnbogason tók að sér að hljóðblanda og einn félagi okkar í Berlín, Arnold Kasar, tók að sér tónjöfnun. Hann hefur unnið mikið með Hans-Joachim Roedelius sem kom einmitt á Extreme Chill-hátíðina 2014 í Berlín og 2016 á Íslandi. Við fengum svo Gretu Þorkelsdóttur til að hanna umslagið.

Tunglleysa var tilbúin sumarið 2020 og stórt útgáfufyrirtæki á Englandi ætlaði að gefa hana út, en svo kom Covid og allt fór á hliðina. Við vildum svo ekki bíða lengur og ræddum við Reyni hjá Reykjavik Record Shop og hann stökk á að gefa út.“

Margt á teikniborðinu

Það er meira um raddir á Tunglleysu en á því sem þeir félagar hafa áður gefið út. Aðspurðir hvort það sé birtingarmynd á meðvitaðri þróun eða hafi einfaldlega atvikaðist svo segir Þorkell að þeir hafi hitt söngkonuna Mari Kalkun í Tallinn 2016 og þá hafi komið upp sú hugmynd að þau myndu vinna saman. „Hún bauð okkur síðan á tónleika sína og þar var einhver tónn sem okkur fannst passa vel við okkar hugmyndir. Það var alltaf hugmyndin að hafa raddir, sum lögin beinlínis kölluðu á það,“ segir Þorkell og Pan bætir við: „Það er gaman að segja frá því að Mari Kalkun var valin tónlistarmaður Eistlands 2020 í ERR, eistneska ríkisútvarpinu.“

Það gefur augagleið að plötu með svo fjölbreyttum hópi tónlistarmanna er snúið að flytja í heild sinni og þeir félagar segja að líklega verði ekkert af slíku, í bráð að minnsta kosti. Þorkell segir þó að um leið og heimurinn opnist muni þeir örugglega spila eitthvað og þá kannski merð einhverjum af þeim sem syngja á plötunni. Pan tekur undir þetta og bætir við að tónleikar séu þeim mjög mikilvægir til að þróa tónlistina, fá hugmyndir að nýjum lögum og hitta fólk. „Við reynum yfirleitt að spila nýtt efni á tónleikum, mikið til í spuna. Það drífur okkur áfram í tónlistarsköpun.

Það eru margar hugmyndir á teikniborðinu og kannski verður úr ný plata. Annars er stefnan að spila og kynna plötuna á næstu mánuðum í Evrópu og í Eistlandi.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Notaðu dagbókina þína, þú veist, þessa sem einhver keypti handa þér fyrir óralöngu. Maki þinn eykur tekjur sínar og fólk kemur til þín færandi hendi.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Notaðu dagbókina þína, þú veist, þessa sem einhver keypti handa þér fyrir óralöngu. Maki þinn eykur tekjur sínar og fólk kemur til þín færandi hendi.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar