Tónlistarkonan Madonna vakti mikla athygli fyrir myndir sem hún birti af sér á samfélagsmiðli sínum í vikunni. Þykir Madonna sýna á sér ansi djarfa hlið og telja sumir að myndirnar ættu frekar heima á klámsíðu en Instagram.
„Engill vakir yfir mér,“ skrifar stjarnan við tíu myndir af sér. Á myndunum er ljóshærð Madonna aðeins í sokkabuxum, efnislitlum undirfötum og pinnahælum. Hún stillir sér meðal annars upp undir rúmi þannig að aðeins sést í rass og fætur. Einnig má sjá hana uppi í rúmi.
Ekki er vitað hvað hinni 63 ára gömlu söngkonu gengur til með myndbirtingunni en viðtökurnar hafa verið misjafnar. Vel sést í brjóst Madonnu og meira að segja geirvörtu. Brjóst og geirvörtur eru það eðlilegasta í heimi en líklega er það eitthvað annað við myndirnar sem fer fyrir brjóstið á fylgjendum hennar.
Fjölmargir hafa lækað myndirnar og hrósað en mjög margir gagnrýnt hana í athugasemdum. Fólk segist vera í áfalli. Madonnu er einnig bent á að hún sé betri en þetta og myndunum líkt við klám.