Lögreglan í Santa Fe í Bandaríkjunum, sem rannsakar andlátið sem varð við tökur á kvikmyndinni Rust í október, skoðar nú hvort endurunnin skothylki hafi mögulega ratað í hóp púðurskota sem nota átti á tökustað í Nýju-Mexíkó.
Þetta kemur fram í dómsskjölum sem voru birt í gær. Þar kemur m.a. fram að gefin hafi verið út leitarheimild hjá fyrirtæki í Albuquerque sem sér um að útvega kvikmyndaframleiðslufyrirtækjum skotfæri og aðra leikmuni. Þetta kemur fram á vef Reuters.
Eigandi fyrirtækisins sagði við lögregluna að það væri mögulegt að alvöru byssukúlurnar væru hluti af endurunnum skothylkjum sem hann hafði fengið frá vini sínum.
Kvikmyndatökustjórinn Halyna Hutchins lést 21. október þegar alvöru skot hljóp úr byssu sem Alec Baldwin, aðalleikari og framleiðandi myndarinnar, handlék. Joel Souza, leikstjóri myndarinnar, særðist.
Rannsóknin beinist nú að því hvernig alvöru kúlur, í stað púðurskota, enduðu í byssunni. Lögreglan segir að fleiri alvöru skothylki hafi fundist á tökustaðnum.
Engin ákæra hefur verið gefin út í tengslum við rannsókn málsins. Aftur á móti þá hafa tveir úr tökuliðinu höfðað einkamál á hendur framleiðendum myndarinnar, en þeir halda því m.a. fram að öryggismál hafi verið í ólestri.