Breska fréttablaðið Sunday Times hefur valið Þorpið eftir Ragnar Jónasson eina af fimm bestu glæpasögum ársins. Listinn var birtur í blaði dagsins í dag.
Blaðið birti lista yfir þær glæpa- og spennusögur sem gagnrýnendur blaðsins telja að hafi skarað fram úr á árinu. Einungis tvær þýddar bækur eru á listanum.
Ragnar er sannarlega í góðum félagsskap á þessum lista en meðal annarra höfunda þar er metsöluhöfundurinn Stephen King.
Í umsögn um bókina segir að Þorpið, sem kom fyrst út á íslensku árið 2018, sé frábrugðin fyrri verkum Ragnars sem hafi getið sér góðs orðs sem glæpasagnahöfundur. Þorpið er spennutryllir og fjallar um kennarann Unu sem ræður sig til starfa á Skálum á Langanesi árið 1985.
Í tilkynningu frá útgefanda bókarinnar segir óhætt að segja „að Bretar hafi tekið bókinni opnum örmum því að hún er fyrsta íslenska bókin sem nær því að vera á meðal hinna tíu söluhæstu á metsölulista Sunday Times.“