Tilnefningar tónlistarmannsins Drakes til Grammy-verðlaunanna hafa verið dregnar til baka. Samkvæmt heimildum Variety var það gert að frumkvæði tónlistarmannsins. Hann var tilnefndur til tvennra verðlauna.
Drake hefur ekki gefið upp ástæðu þess af hverju hann óskaði eftir að tilnefningar hans yrðu dregnar til baka og Recording Academy hefur sömuleiðis ekki gefið neitt upp.
Á vef verðlaunanna segir að tilnefningar Drakes hafi verið dregnar til baka og enginn verði tilnefndur í staðinn.
Drake hefur átt í stormasömu sambandi við verðlaunahátíðina undanfarin ár. Á síðasta ári óskaði hann eftir því að Grammy-hátíðin yrði lögð niður og önnur verðlaunahátíð kæmi í staðinn, eftir að fjöldi tónlistarmanna var sniðgenginn, þar á meðal The Weeknd.