Bandaríska tónlistarkonan Taylor Swift þarf að mæta fyrir rétt vegna ásakana um hugverkastuld. Er hún sögð hafa stolið textanum í lagi hennar Shake It Off úr öðru lagi.
Swift óskaði eftir því að að málinu yrði vísað frá en því var hafnað og sagði dómari kviðdóm þurfa að ráða úr því hvort söngkonan hafi stolið umræddum texta úr laginu Playas Gon' Play eftir stelpubandið 3LW frá árinu 2001.
Dómarinn hafði áður hafnað málinu og sagði textann of almennan til að vera höfundarréttarvarinn.
Í upprunalegum úrskurði sínum vitnaði Michael W. Fitzgerald, héraðsdómari í 13 eldri lög sem innihéldu svipaðar setningar, þar á meðal Playa Hater eftir The Notorious B.I.G. og Dreams eftir Fleetwood Mac, að því er fréttastofa BBC greinir frá.
„Snemma á tíunda áratugnum voru frasar eins og „playas gonna play“ og „haters gonna hate“ mikið notaðir. Það er bara eins og að segja „runners gonna run“, „drummers gonna drum“ eða „swimmers gonna swim“, er haft eftir honum í úrskurðinum.
„Það þarf enga sérstaka sköpunargáfu til að lýsa því sem einstaklingur er að gera. Það er almenn vitneskja.“
„Til að draga það saman er textinn sem um ræður of stuttur og ófrumlegur til að hljóta höfundarréttarvernd.“
Úrskurði hans var þó snúið við þegar lagahöfundarnir Sean Hall og Nathan Butler áfrýjuðu málinu til alríksiáfrýjunardómstóls.
Það sendi málið aftur til Fitzgerald og bað Swift um stuttan og tafarlausan úrskurð um að hún hafi ekki brotið gegn höfundarrétti. Fitzgerald neitaði þeirri beiðni í gær.
„Jafnvel þó það sé nokkuð áberandi munur á verkunum, þá eru líka verulega mikil líkindi í orðanotkun, röð og skipan þeira,“ er haft eftir honum.
Sérfræðingar Swift hafi fært „sannfærandi rök“ fyrir sínu máli en það hafi ekki dugað til að koma í veg fyrir að málið færi fyrir dóm.
Lag stelpubandsins 3LW, Playas Gon' Play sló í gegn en frá útgáfu lagsins hefur annar höfundur þess samið og framleitt lög fyrir tónlistarmenn á borð við Justin Biebe og Maroon 5. Þá hefur hinn höfundur þess, Butler, unnið að lögum með t.d. strákabandinu Backstreet Boys og tónlistarmanninum Luther Vandross.
Shake It Off er ein mest selda smáskífa Taylor Swift og sat lengi vel efst á vinsældarlistum í Bandaríkjunum og í Bretlandi.
Lögfræðingar Hall og Butler fögnuðu ákvörðun dómarans og sögðu þá hafa dæmt rétt í málinu. Lögfræðingar Swift höfnuðu beiðni BBC um viðbrögð þegar eftir þeim var leitað.
Enn á eftir að tilkynna hvenær réttarhöldin munu fara fram.