Charlene prinsessa af Mónakó dvelur á meðferðarheimili en aðeins eru nokkrar vikur síðan hún kom heim eftir sex mánaða dvöl frá Suður-Afríku. Faðir hennar hefur tröllatrú á dóttur sinni sem hefur ekki getað sinnt sjö ára gömlum tvíburum sínum í marga mánuði.
Prinsessan er sögð vera í hvíldarinnlögn eftir erfitt ár en heilsuhælið sem hún liggur inni á er ekki í Mónakó. Albert fursti, eiginmaður Charlene prinsessu, segir hana vera úrvinda af þreytu, bæði andlega og líkamlega.
Charlene keppti í sundi á Ólympíuleikunum fyrir hönd Suður-Afríku áður en hún gekk í hjónaband með Alberti. Faðir hennar, Michael Wittstock, telur að sundferill hennar hjálpi henni á næstu mánuðum. „Miðað við hvernig hún æfði þá veit ég að hún er sterk og mun komast í gegnum þetta og verður sterkari,“ sagði faðir hennar í viðtali við suðurafríska miðilinn You að því fram kemur á vef People.
Foreldrar Charlene máttu ekki heimsækja hana vegna kórónuveirufaraldursins. „Við töluðum saman reglulega í síma og ég talaði við tvíburana. Við eigum í góðu sambandi,“ sagði móðir prinsessunnar.
Prinsessan var föst í Suður-Afríku. Hún var með svæsna sýkingu í eyrum, kinnholum og hálsi sem gerði það að verkum að hún átti erfitt með að kyngja. Veikindin komu í veg fyrir að hún mætti fljúga heim til Mónakó.