Tónlistarmaðurinn Páll Óskar Hjálmtýsson greinir frá því á facebooksíðu sinni að sambýlismaður hans og sálufélagi, kötturinn Gutti, sé fallinn frá. Gutti mætti óboðinn í afmæli Páls Óskars hinn 16. mars 2004 eftir að hann stakk af frá fyrri eiganda.
Páll Óskar segir mikla sorg á heimili sínu núna en hann fór yfir litríkt lífshlaup Gutta í minningargrein. Hann segir að hinn ljóngáfaði Gutti hafi lifað í 19 ár sem er 92 ár í kattarárum.
„Gutti fæddist í október 2002, og stakk af frá fyrri eiganda í Þingholtunum vegna ósættanlegs ágreinings við annan ógeldan gaur á sama heimili. Gutti ákvað að labba af stað og leita sér að íbúð í 101 eða 107 og þar hófst mikið flakk sem stóð lengi yfir. Samkvæmt lögregluskýrslum var Gutti handtekinn tólf sinnum á sex mánuðum (sjá mugshots). Hann var handtekinn á djamminu á Prikinu, Sólon, Rammagerðinni, Íslandsbanka á Eiðistorgi, Tóbaksbúðinni Björk og Happdrætti DAS. Hann var oft gómaður í miðasölu Háskólabíós og einu sinni var hann böstaður í Sal 1 þar sem hann var að horfa á kvikmynd Mel Gibsons „The Passion of Christ“.
Þegar Gutti var búinn að gera leigusamning við mig (poppstjarnan fékk að leigja eitt herbergi í nýju íbúðinni hans) var strax tekið til óspilltra málanna að eignast stærri hlut í húsinu, garðinum, bílastæðunum, götunni og hverfinu. Með einbeittum brotavilja buffaði Gutti hvern þann sem veitti honum minnstu samkeppni. Hann varð góðkunningi Dagfinns Dýralæknis eftir ótal blóðuga bardaga og ég skil ekki stundum hvernig hann lifði þetta tímabil af. Ef ég hefði rakað allt hárið af Gutta hefði hann litið út eins og gamall boxari eða útsaumaður Rambo.
Fyrstu þrjú árin þakkaði hann mér lífgjöfina með því að veiða allt sem hafði púls. Stundum leit heimilið út eins og hjá keðjusagarmorðingjanum í Texas. Einu sinni var keyrt á önd í götunni fyrir framan húsið. Gutti var eina vitnið. Hann dró líkið af öndinni af götunni, gegnum innkeyrsluna, inn í garð og tróð henni svo gegnum stofugluggann. Hann móðgaðist þegar ég varð brjálaður og fannst ég vera vanþakklátt pakk.
Hann var ekki hræddur við neitt. Einu sinni sá ég hann skella sér á „hestbak“ á hundi sem var mun stærri en hann. Gutti notaði hunda og jafnvel bílþök til að skutla sér þónokkurn spöl og var bara að fíla útsýnið á meðan.
Gutti var ljóngáfaður. Það þýddi ekkert að reyna að æsa hann upp eða leika sér við hann með einverjum aðkeyptum kisu leikföngum. Ég keypti lazer til að stríða honum, en hann fattaði plottið eftir sirka 2 mínútur, stóð bara á gólfinu og horfði í augun á mér eins og ég væri hálfviti. Óþarfi að kaupa fleiri leikföng inn á heimilið eftir það.
Gutti mjálmaði aldrei nema þegar brýna nauðsyn bar til. „Hleyptu mér út, opnaðu fyrir mér, gemmér að éta, það vantar mat í skálina, ég borða ekki mat sem er keyptur á bensínstöð, ég vil bara lífrænt ræktað Royal Canine, hvað hef ég gert til að verðskulda þessa ömurlegu þjónustu?“ Hann fór alltaf í göngutúr sjö sinnum á dag, til að tékka á yfirráðasvæðinu, pissa og buffa þá sem komu nálægt. Sjö sinnum á dag - allt til dauðadags.
Ég gæti skrifað margar snilldarsögur af Gutta. Síðasta snilldarmómentið gerðist fyrir aðeins þrem vikum síðan. Ég keypti þrjá rafmagnsofna inn á heimilið, spes fyrir gamla gigtveika Gutta, og hann svaf í hitanum og heilaði gigtina um leið. Eldsnemma morguns (kl 4.20) heyrðist hátt og snjallt mjálm við rúmgaflinn hjá mér. Gutti vakti mig en ég nennti ekki frammúr. Þá gerði Gutti svolítið sem hann gerði nær aldrei. Hann labbaði upp í rúm, ofan á mig, setti báðar framlappirnar á brjóstkassann á mér, horfði í augun á mér og sagði eitt hátt og snjallt „MJÁ!“.
Ég fór frammúr til að tékka á hvað væri eiginlega í gangi. Innbrotsþjófur? Eldur í húsinu? Allur matur búinn? Svo fattaði ég. Ég hafði gleymt að kveikja á ofnunum hans yfir nóttina og honum var orðið illt af kulda. Hann var að skamma mig fyrir það og vissi að ég gæti reddað þessu. Sum dýr eru einfaldlega vel gefin, hafa sterkan persónuleika, sína eigin siði og venjur, geta lært og tjáð sig við mannfólk þó þau séu „málleysingjar“. Gutti var sönnun þess alls. Eldklár köttur.
Ævikvöldið var töfrum líkast. Ég vakti yfir honum alla nóttina, það var kyrrt og fallegt veður, logn og stjörnubjart og við horfðum á uppáhalds kvikmyndina hans, Terminator 2: Judgment Day.
Aðeins 15 mínútum áður en Dagfinnur Dýralæknir kom heim til að hjálpa Gutta að sofna svefninum langa, fór Gutti í sinn loka labbitúr út í garð, þótt hann gæti varla stigið í lappirnar né haldið haus, bara til að tékka á yfirráðasvæðinu. Jafnvel við dauðans dyr, þá var hann ennþá á vakt.
Ég mun aldrei framar kynnast ketti eins og Gutta. Ég er svo þakklátur fyrir að hafa fengið að deila síðustu 18 árum undir sama þaki og hann. Það er stórskrýtið að vera í íbúðinni núna. Ég þarf stundum að spyrja mig hvaða heimili ég sé staddur á. Það er stórskrýtið að snúa lyklinum í skráargatinu, opna útidyrahurðina og af gömlum vana kallar maður hátt og snjallt „MJÁ“ og maður á von á því að heyra eitt „mjá“ svar til baka. Núna heyrist það ekki og það mun taka mig nokkurn tíma að komast yfir það. Það er mikil sorg á heimilinu núna.
Blessuð sé minning Gutta, sem náði að lifa í 19 ár (alls 92 mennsk ár) og var hvíldinni feginn þegar nýrun hans luku keppni í síðustu viku. Ég er alveg í klessu hérna. Búið að vera mjög erfitt að skrifa þessa minningargrein og skoða allar þessar gömlu myndir. Maður grenjar og tekur svo hlátursköst inn á milli.
Mikið var gott að deila lífinu með þér, Gutti. Takk fyrir að velja mig sem lífsförunaut. Ég hefði ekki getað valið betri kött.