Tónlistarkonan Billie Eilish smitaðist af kórónuveirunni í ágúst síðastliðnum. Hún segir bóluefni við veirunni hafa bjargað lífi sínu. Eilish var gestur Howard Stern í útvarpsþætti í gær.
„Bóluefni eru fokking mögnuð og þau björguðu Finneas [bróður hennar] frá því að veikjast, það bjargaði líka foreldrum mínum og vinum,“ sagði hin unga tónlistarkona.
Eilish segist hafa verið veik í um tvo mánuði af veirunni og að hún finni enn fyrir aukaverkunum, en tilgreindi ekki hvaða.
„Mig langar að taka það skýrt fram að það er í lagi með mig vegna bóluefnisins. Ég tel að ef ég væri ekki bólusett, þá hefði ég dáið, því þetta var hræðilegt,“ sagði Eilish.
„Þegar ég segi að þetta hafi verið hræðilegt, þá meina ég meira að mér leið ömurlega. En, svona miðað við hversu slæmt Covid er, þá var þetta ekki það slæmt. Fattarðu hvað ég meina? Þegar þú ert veikur, þá líður þér andskoti illa,“ bætti Eilish við.
Eilish er ein frægasta tónlistarkona heims um þessar mundir og hefur rakað inn verðlaunum undanfarin tvö ár. Þá á hún titillag nýjustu James Bond-kvikmyndarinnar. Elish verður 20 ára hinn 18. desember næstkomandi.