Tilnefningar til Íslensku þýðingaverðlaunanna 2022 voru kynntar í Kiljunni á RÚV fyrir stundu. Að verðlaununum stendur Bandalag þýðenda og túlka í samstarfi við Rithöfundasamband Íslands og Félag íslenskra bókaútgefenda. Þau eru veitt fyrir bestu þýðingu á bókmenntaverki og er tilgangur þeirra að vekja athygli á ómetanlegu framlagi þýðenda til íslenskrar menningar.
Sjö bækur eru tilnefndar að þessu sinni, en alls bárust um 70 bækur frá 15 útgáfum.
Tilnefndir þýðendur eru í stafrófsröð þýðenda:
- Ásdís R. Magnúsdóttir, fyrir þýðingu sína Fríða og dýrið, franskar sögur og ævintýri fyrri alda. Háskólaútgáfan gefur út.
„Verkið inniheldur alls 17 franskar sögur, allt frá 12. öld fram til 18. aldar og hafa aldrei birst fyrr í íslenskri þýðingu. Auk þess ritar þýðandinn inngang þar sem saga stuttra sagna eða stuttra texta er sögð. Bæði sögurnar og vandaður inngangur þeirra eru mikilsvert framlag til þekkingar okkar á bókmenntum sem við höfum litlar spurnir haft af. Sögurnar eru mjög ólíkar hver annarri og stíll þeirra sömuleiðis. Þann vanda leysir Ásdís með mikilli prýði þannig að hver saga nýtur sérkenna sinna til fulls.“
- Gunnar Þorri Pétursson, fyrir þýðingu sína Tsjernobyl-bænin. Höfundur Svetlana Aleksíevítsj. Angústúra gefur út.
Gunnar Þorri Pétursson
mbl.is/Arnþór Birkisson
„Þetta verk segir skelfilega sögu, ekki einungis af atburðinum sjálfum, Tsjernobyl-slysinu, heldur og af því sem fylgdi í kjölfarið en ekki síst af því sem á líklega eftir að sannast. Undirtitill verksins, „framtíðarannáll“, vekur skelk og ekki síður einkunnarorð verksins, „Við erum úr lofti en ekki úr jörðu komin.“ Það boðar ekki gott að vera úr loftinu sem Tsjernobyl andaði yfir okkur. Hér segja margir sögu sína með ólíkum röddum. Þessum röddum kemur þýðandi til skila með glæsibrag.“
- Hallgrímur Helgason, fyrir þýðingu sína Hjartað mitt. Höfundar Jo Witek og Christine Roussey. Drápa gefur út.
„Þetta verk fjallar um hjartað og um það sem í því býr, allar tilfinningarnar. Bókin er ákaflega fallega úr garði gerð, teikningarnar líflegar og textinn, hefðbundin ljóð, sérlega fallegur. Þar kemur að hlut þýðandans, Hallgríms Helgasonar, sem leysir hlutverk sitt einstaklega vel af hendi. Bókin er ábending um að góð ljóð geta ratað til barna og leitt þau til skilnings og tjáningar á óróleikanum í hjartanu.“
- Jóhann Hauksson, fyrir þýðingu sína Rannsóknir í heimspeki. Höfundur Ludwig Wittgenstein. Háskólaútgáfan gefur út.
Jóhann Hauksson
mbl.is/Frikki
„Ludwig Wittgenstein hefur alltaf verið talinn erfiður aflestrar og um bók sína, Rannsóknir í heimspeki, segir hann að þar séu punktar sem á 16 árum „tóku sífelldum breytingum og röðuðust saman í sínýjar myndir“. Því gefur auga leið að slíkan texta er ekki auðvelt að þýða en það hefur Jóhanni Haukssyni tekist þannig að einbeittur lesandi getur áttað sig á „athugasemdum“ Wittgensteins. Það er sárasjaldan að þýðendur leggi í vandaverk sem þetta og því ber að fagna þegar það tekst jafn vel sem hér.“
- Jón Stefán Kristjánsson, fyrir þýðingu sína Glæstar vonir. Höfundur Charles Dickens. Mál og menning gefur út.
Jón Stefán Kristjánsson
mbl.is/Kristinn Magnússon
„Það er mikill fengur að fá íslenska þýðingu á þessu klassíska verki Dickens sem hingað til hefur verið lokað öðrum en þeim sem eru meira en stautfærir í ensku máli. Þótt gömul sé, á sagan, eins og öll sígild verk, enn erindi til samtímans. Þýðandinn, Jón St. Stefánsson, vinnur verk sitt glæsilega og nær að flytja blæ ritunartímans til lesenda okkar tíma ásamt þeirri hæðni og húmor sem einkennir þetta verk Dickens.“
- Jón Hallur Stefánsson, fyrir þýðingu sína Ef við værum á venjulegum stað. Höfundur Juan Pablo Villalobos. Angústúra gefur út.
„Sagan fjallar um örreytisþorp í Mexikó, þar sem fátæktin er mæld í ólíkum birgðum af ostafylltum maísflatkökum. Frásögnin vegur salt á milli hins raunverulega og töfraraunsæis. Jón Hallur kemur vel til skila blæbrigðum frásagnarinnar, háði og kímilegum aðstæðum þótt hrikalegar séu.“
- Sólveig Sif Hreiðarsdóttir, fyrir þýðingu sína Á hjara veraldar. Höfundur Geraldine McCaughrean. Kver útgáfa gefur út.
„Skáldsagan Á hjara veraldar gerist á 18. öld og greinir frá örlögum manna sem verða innlyksa á eyðieyjunni St. Kildu úti í Atlantshafi fjarri mannabyggðum og verður að bjarga sér með öllum tiltækum ráðum. Sagan er ætluð börnum og unglingum og er þeim áreiðanlega forvitnileg og holl lesning. Það öryggi, sem ungt fólk í okkar heimshorni býr við, er ekki sjálfsagt og hefur aldrei verið. Þýðingin er vandaverk. Umhverfið, störf manna og hugmyndir eru framandi og ýmis hugtök sem við sögu koma fjarlæg okkur. Þýðandanum hefur því verið vandi á höndum en þann vanda leysir Sólveig Eir Hreiðarsdóttir með mikilli prýði og opnar okkur framandlegan en þó kunnuglegan heim.“
Í dómnefnd sitja Elísabet Gunnarsdóttir, Þórður Helgason og Guðrún H. Tulinius, sem var formaður. Verðlaunin verða afhent í febrúar á næsta ári.