Tvær konur hafa stigið fram og sakað leikarann Chris Noth um að hafa brotið á þeim kynferðislega. Noth er hvað þekktastur fyrir að fara með hlutverk Mr. Big í þáttunum Sex and the City og framhaldsþáttunum ...And Just Like That sem frumsýndir voru á dögunum.
Útgáfa framhaldsþáttanna olli því að konurnar ákváðu, hvor í sínu lagi, að stíga fram og greina frá meintum kynferðisbrotum. The Hollywood Reporter greinir frá þessu.
Að sögn THR höfðu báðar konurnar, sem stigu fram undir dulnöfnum, samband við fjölmiðilinn og vildu fá að segja sögu sína. Konurnar tvær þekkjast ekki að því er fram kemur í fréttinni. Báðar segja þær Noth hafa misnotað þær kynferðislega fyrir meira en áratug síðan.
Noth hefur neitað ásökununum í skriflegu svari til THR. „Þessar ásakanir gegn mér eru frá einstaklingum sem ég hitti fyrir mörgum árum, jafnvel áratugum síðan, og þær eru algjörlega ósannar. Þessar sögur gætu verið frá 30 árum eða 30 dögum síðan, nei þýðir alltaf nei, það er lína sem ég fer ekki yfir. Það var samþykki til staðar,“ sagði Noth.
„Það er erfitt að velta ekki fyrir sér tímasetningunni. Ég veit ekki fyrir vissu af hverju þær eru að koma fram núna, en eitt veit ég, ég braut ekki á þessum konum,“