Skáldsagan Merking eftir Fríðu Ísberg hefur nú verið seld til 14 málsvæða. Merking hefur slegið rækilega í gegn en hún seldist upp hjá útgefanda sem hafði hraðar hendur við að endurprenta hana og nú er nýja upplagið sem betur fer komið í hillur.
Merking vann nýlega Bóksalaverðlaunin og hlaut tilnefningu til Fjöruverðlaunanna. Fríða er einnig ein af Svikaskáldum sem sendu frá sér skáldsöguna Olía sem hlaut tilnefningu til Íslensku bókmenntaverðlaunanna.
Faber & Faber keyptu réttinn í Bretlandi en þau gefa út bækur eftir fremstu rithöfunda heims eins og Milan Kundera, Sally Rooney og Kazuo Ishiguro.
Fríða hefur getið sér góðan orðstír fyrir ljóðabækurnar Slitförin og Leðurjakkaveður, og smásagnasafnið Kláða sem var tilnefnt til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs. Merking er fyrsta skáldsaga hennar.