Leikkonan Julia Roberts mætti óvænt í viðtal við George Clooney í þætti spjallþætti Jimmy Kimmel. Roberts sagði ekkert í þættinum og lét Clooney sem hann sæi hana ekki. Hollywood-stjörnurnar eru staddar í Ástralíu í tökum á myndinni Ticket To Paradise.
Í þættinum var einnig hinn tíu ára gamli leikari Daniel Ranieri sem Clooney leikstýrir í kvikmyndinni The Tender Bar. Ranieri var sjálfsöruggur í þættinum og bar Clooney honum söguna vel. „Hann mætti og gerði allt í fyrstu töku,“ sagði Clooney um leikarann unga.
Roberts rúllaði sér þá óvænt í mynd á skrifborðsstól með svört sólgleraugu. Það leit út eins og hún hefði boðið sjálfri sér í þáttinn en líklega var það Clooney sem bauð henni. „Ó, guð. Hólí mólí,“ sagði Kimmel. Clooney lét sem hann sæi ekki vinkonu sína og samstarfskonu. Hún fór fljótlega úr mynd aftur. „Kannski var ég að ímynda mér þetta. Hún leit samt eins út og Julia Roberts,“ sagði Kimmel skellihlæjandi eftir að Roberts hvarf.
Clooney er þekktur hrekkjalómur. Fyrir rúmlega tíu árum greindi hann til dæmis frá því að hann hefði platað aukaleikara sína til þess að velta sér upp úr drullu af óþörfu. „Ég lét þá vinna þremur eða fjórum dögum lengur og sagði þeim að við yrðum að taka aftur upp leðjuatriðið. Ég greiddi þeim laun fyrir tæpa viku,“ segir Clooney á sínum tíma.