Sex and the City-leikarinn Mario Cantone segir leikarann Willie Garson hafa verið yndislegan eiginmann á skjánum. Cantone og Garson léku hjón í þáttunum Sex and the City, en Garson féll frá fyrr á þessu ári.
Í viðtali við Gilbert Gottfried í hlaðvarpinu Amazing Colossal sagði Contone að andlát Garsons hefði verið mikið áfall. Garson lést úr krabbameini í brisi aðeins 57 ára gamall, en hann hafði þá lokið hlutverki sínu í framhaldsþáttunum ... And Just Like That.
„Ekkert okkar vissi af því, og þetta var bara, þetta var hræðilegt. Mjög sorglegt. Og hann var frábær faðir Nathens, það var það eina sem hann talaði um. Hann elskaði hann mjög mikið,“ sagði Cantone um Garson.
Cantone sagði þá Garson ekki hafa hist mikið þar sem þeir byggju hvor á sinni ströndinni. „En ég sakna hans. Hann kom mér til að hlæja. Hann var frábær eiginmaður á skjánum. Hann var elskaður og hann var svo magnaður og bráðfyndinn. Hann var allt. Ég sakna hans svo mikið,“ sagði Cantone.