Leiði tónlistarmannsins Georges Michael er loksins komið með legstein, fimm árum eftir andlát hans. Michael var hvað þekktastur fyrir að hafa verið í hljómsveitinni Wham! áður en hann sneri sér að sólóferli sínum.
Fjölskylda tónlistarmannsins frestaði því í langan tíma að setja legstein á leiði hans vegna ótta að leiði hans yrði að vinsælum stað aðdáenda hans.
Michael fannst látinn á heimili sínu í London á Bretlandi á jóladag árið 2016, 56 ára að aldri. Hann hvílir nú í Highgate kirkjugarðinum í London og er gröf hans merkt fæðingarnafni hans Georgios Kyriacos Panayiotou. Hann hvílir við hlið móður sinnar, Lesley og systur sinnar, Melanie, sem lést á jóladag 2019, þremur árum eftir að bróðir hennar lést.