„Ox kom af himnum og steypti sér beint í djúpsjó undirmeðvitundarinnar. Þar óx hann inni í mér, nærðist á öllum mínum upplifunum og demöntum sem ég hafði safnað úr botnum brunna erfiðra tímabila. Hann fæddist í vatni, stökk svo út á tún og ég bara hló, elskaði hann og leyfði honum að leika sér.“ Tónlistarkonan og tónskáldið Gyða Valtýsdóttir er að segja frá nýrri plötu sinni, Ox, hennar fjórðu, sem kom út á dögunum. Á unglingsaldri var Gyða einn stofnenda hljómsveitarinnar múm sem átti eftir að koma fram víða um lönd. Hún lærði á selló og tónsmíðar hér heima en líka í Rússlandi og í Sviss, og hún hefur átt í frjóu samstarfi við ýmsa og ólíka listamenn víða. Ox er önnur sólóplata Gyðu þar sem hún semur alla tónlist sjálf en á hinum tveimur, Epicycle I og II, fékk hún ólík tónskáld og tónlistarmenn til að leggja fram lögin. Fyrir tveimur árum hlaut Gyða hin virtu Tónlistarverðlaun Norðurlandaráðs „fyrir tónlistarflutning þar sem sköpunarkrafturinn brýst fram með afgerandi rödd, frumlegum hljóðfæraleik og miklum persónutöfrum“.
Þegar Gyða er spurð út í muninn á verklaginu við síðustu plötur sínar, annars vegar að vinna með tónverk annarra og hins vegar semja allt sjálf, þá svarar hún: „Á Epicycle II fékk hvert tónskáld/tónlistamaður algjörlega að ráða hvað þau vildu gera og hvernig þau vildu vinna með mér. Svo ég varð bara að treysta að úr yrði heilsteypt plata. Það var mjög hollt að fara í gegnum svona ferli sem maður hefur ekki fulla stjórn á. Í raun reyni ég yfirleitt að nálgast vinnu mína á þann hátt, læt eitthvað af stjórn, leyfi einhverjum leikbrúðu-meistara lífsins að dansa við mig.“
Ox fæddist síðan í heimsfaraldri kórónuveirunnar.
„Í upphafi faraldursins fannst mér mjög erfitt að ná nokkrum fókus,“ segir Gyða. „Ég var í Brooklyn og þar gjörbreyttist lífið á hátt sem við höfum aldrei þurft að upplifa hér á Íslandi. En það myndaðist sterk samfélagsvitund á meðal listamanna þar. Við hittumst á netinu á hverjum morgni til að gera æfingar, bjuggum til okkar eigin verslun til að kaupa inn mat sem við keyrðum um á milli húsa því það var svo erfitt að versla. Við skipulögðum einnig vikur þar sem við urðum að semja eitt lag á dag, sem var svo sent á allan hópinn. Þrjú lagana á Ox uxu út frá því.
En þótt að maður hafi haft miklu meiri tíma þá vantaði algjörlega ramma, það var enginn túr til að stefna að eða neitt svoleiðis. Svo í haust þá fékk ég sumarhús við Þingvallavatn í láni í tíu daga og fór þangað með Úlfi Hanssyni,“ – hann kom að upptökunum og hljóðblöndun plötunnar með Gyðu – „og setti mér það markmið að klára plötuna. Ég var þá komin langt með flest lögin en var enn að vinna í útsetningum og einu laginu hafði ég ekki einu sinni byrjað á. Ég sat því þarna uppi í sveit og skrifaði útsetningar sem ég sendi svo til New York og fékk upptökurnar svo sendar í tölvupósti nokkrum tímum síðar.“
En hvað er fram undan – mun Gyða fylgja plötunni eftir með tónleikum? Og bíða önnur verkefni?
„Ég vonast til að geta byrjað að spila aftur næsta vor. Þangað til er ég að semja tónlist fyrir heimildarmynd um mosa. Ég finn svo mikinn innblástur frá mosanum að ég held að þetta verði bara næsta plata, mosa-tónlist. Svo er ég að gera tónlistarmyndbönd fyrir Ox, ég var að taka upp þriðja myndbandið í síðustu viku og er með hugmyndir fyrir þrjú í viðbót.
En núna í janúar fer ég upp í fjöll í Perú með gamalli seiðkonu og verð þar í þrjár vikur að læra á plöntur, vefnað, söng og heilun.“
Gyða sem sagt vinnur þessa dagana að gerð margra tónlistarmyndbanda við lögin á plötunni nýju. Blaðamaður hitti hana á dögunum í stúdíói þar sem hún var að vinna að einu þeirra ásamt ballerínunni Juliet Burnett. Um vídeóin sagði Gyða þá að hugmyndirnar hafi leitað á sig. „Eitt þeirra kom til dæmis þegar ég var að mixa plötuna og sá þá fyrir mér ballerínudúett í einu laginu. Ég hef svo sem engan sérstakan áhuga á ballett en var samt að fylgja Juliet á Instagram og hafði samband við hana. Svo skrifaði hún mér um daginn, sagðist vera laus í næstu viku og hvort hún ætti ekki að koma til Íslands. Hún mætti og við höfðum þrjá daga til að búa til dansinn og taka upp vídeó. Ég var þá allt í einu komin í ballerínubúning,“ segir Gyða og hlær. „Þessa dagana þarf ég að passa mig á því hvers ég óska mér, því óskirnar rætast mjög hratt.“
Nú um helgina kemur út annað vídeó við lag á plötunni, „Miracle“.
„Ég sá það fyrir mér á laugardegi og gerði það á mánudegi. Vídeóin eru enn þá frekar heimagerð, ég hef ekki mikið fjármagn til að vinna með, en það gerir þau kannski enn persónulegri,“ segir Gyða.
„Þegar ég fæ svona ákveðna sýn á útfærslu þá reyni ég að láta það fæðast. Eins og ballerínuvídeóið – aldrei hefur mig dreymt um að dansa ballett en var svo allt í einu komin í tutu. Í þessu er skemmtilegur leikur sem ég leyfði mér ekki þegar ég var yngri því ég tók mig þá svo alvarlega. Áður var ég mun gagnrýnni á hugmyndirnar mínar en nú finnst mér skemmtilegt að leyfa þeim að koma mér á óvart.
Mér finnst vídeó ekki alltaf bæta einhverju við tónlistina en það er samt alltaf markmiðið að ýta undir orkuna í henni. Ég hef mjög gaman af því að gera plötur sem heild og allt sem tengist þeim, hvaða lög eiga heima saman og hvaða saga verður til þegar þau eru þrædd í eina heild. En líka hönnun umslagsins og einmitt gerð myndbanda. Það er allt hluti af sköpuninni og því að vera listamaður. Þegar maður er með skapandi hug þá stoppar það ekki endilega í einu formi,“ segir Gyða.