Bryan May, gítarleikari hljómsveitarinnar Queen, og eiginkona hans, Anita Dobsonm eru smituð af kórónuveirunni þrátt fyrir að hafa farið að öllu með gát að eigin sögn. Hann hvetur nú fólk til að þiggja bólusetningu.
May greindi frá smitinu í myndbandi á Instagram um helgina. þar segir hann þau hjónin hafa haldið sig til hlés að mestu í faraldrinum en ákveðið að fara í afmæli hjá vini sínum fyrr í þessum mánuði.
Um var að ræða hádegisverðarboð þar sem öll þurftu að sýna fram á neikvætt kórónuveirupróf. „Okkur fannst við vera í öruggum aðstæðum. Þú ert með neikvæð próf, hvað gæti mögulega farið úrskeiðis. Við héldum að við værum í öruggum hóp svo við vorum ekki með grímu,“ sagði May í myndbandinu.
Mánudeginum eftir voru hann og eiginkona hans farin að finna fyrir einkennum kórónuveirunnar.
„Við tökum próf og fáum neikvætt. Á þriðjudaginum heyri ég svo að átta úr partíinu hafi greinst jákvæð og væru með veiruna í líkamanum. Og ég fattað þá að fram að því höfðu þau greinst neikvæð,“ sagði May. Þau tóku annað hraðpróf á þriðjudeginum og fengu þá jákvætt.
May þakkar bólusetningu að veikindin hafi ekki farið verr með hann. Hann hafi upplifað tvo ömurlega daga og sagði þetta vera verstu flensu sem hann hafði nokkurn tíman fengið. Hann hefur fengið þrjá skammta af bóluefni Pfizer.