Nýjasta kvikmyndin um vinalegu nágrannahetjuna, Spider-Man, var frumsýnd föstudaginn hér á landi 17. desember. Þrátt fyrir harðar samkomutakmarkanir sló myndin, Spider-Man No Way Home, öll aðsóknarmet. Rúmlega 18.000 manns sáu myndina um helgina sem gerir myndina að tækjuhæstu mynd sem sýnd hefur verið upp á síðkastið en myndin halaði inn 30 milljónum þessa einu helgi.
„Myndin var sýnd í öllum kvikmyndahúsum landsins og var sýnd í mörgum sölum samtímis þar sem einungis 100 manns mega koma saman í hvert hólf. Vert er að taka fram að kvikmyndahús landsins fylgja ströngum sóttvarnarreglum og tryggja að öryggi og heilsu bíógesta og starfsmanna sé gætt. Ekkert hlé er á sýningum, grímuskylda, engin áfengissala, sjálfvirk sætaskipun og góð loftræsting tryggir að hægt sé að framfylgja sóttvörnum,“ segir í fréttatilkynningu.