Leikkonan Alicia Witt syrgir nú andlát foreldra sinna Roberts og Diönu Witt sem fundust látin á heimili sínu í Worcester í Massachusettsríki í Bandaríkjunum á mánudag. Frá þessu greinir staðarmiðilinn Worcester Telegram en leikkonan er fædd og uppalin í bænum.
Alicia er hvað þekktust fyrir að fara með hlutverk í þáttunum Walking Dead auk kvikmyndarinnar Dune frá árinu 1984.
Að því er fram kemur í tilkynningu frá leikkonunni til fjölmiðla hafði hún samband við ættmenni sitt sem býr í grennd við foreldra hennar. Hún bað um að láta athuga með foreldra sína þar sem hún hafði ekki heyrt frá þeim í nokkra daga.
Lögreglu var gert viðvart skömmu seinna og kölluð til á heimilið þar sem þau fundust látin. Lögregla rannsakar nú andlát Witt-hjónanna en ekkert bendir til að andlát þeirra hafi borið að með saknæmum hætti. Þá hafa loftgæði í húsinu einnig verið könnuð og ekkert bendir til gasleka í húsinu.
Robert Witt var 87 ára en Diane Witt 75 ára að aldri.
Í umfjöllun Worcester Telegram kemur fram að nágrannar Witt-hjónanna hafi haft áhyggjur af þeim í nokkurn tíma. Þau hafi sjaldan sést fyrir utan veggi heimilisins og þau hafi verið veik í nokkurn tíma. Þá hafi nágranni boðið þeim aðstoð við viðhald á húsinu en þau afþakkað kurteislega.
Vonast er til þess að krufning muni leiða dánarorsök hjónanna í ljós.