Hjónaband leikarans Chris Noths og eiginkonu hans, Töru Wilson, er sagt hanga á bláþræði. Tvær konur stigu fram á dögunum og sökuðu leikarann um að hafa brotið á sér kynferðislega. Leikarinn er einna frægastur fyrir að hafa farið með hlutverk Mr. Big í Beðmálum í borginni.
Wilson er sögð búin að fjarlægja giftingarhringinn að því fram kemur á vef Page Six. Noth er talinn halda til í New York en eiginkona hans er í Los Angeles. „Tara er í uppnámi og hlutirnir hanga á bláþræði,“ sagði heimildarmaður. „Hún vill bara vernda börnin. Það er í forgangi hjá henni.“
Noth og Wilson kynntust fyrir um 20 árum en giftu sig 2012. Þau eiga tvo syni, sá eldri fæddist 2008 en sá yngri í fyrra.
Noth hefur neitað ásökununum. „Þessar ásakanir gegn mér eru frá einstaklingum sem ég hitti fyrir mörgum árum, jafnvel áratugum, og eru algjörlega ósannar. Þessar sögur gætu verið frá 30 árum eða 30 dögum; nei þýðir alltaf nei, það er lína sem ég fer ekki yfir. Það var samþykki fyrir hendi,“ sagði Noth.