Home Alone-stjarnan Devin Ratray var handtekinn í Oklahomaborg í Bandaríkjunum á miðvikudag. Er hann ákærður fyrir að hafa lagt hendur á fyrrverandi kærustu sína fyrr í þessum mánuði.
Ratray er aukinheldur ákærður fyrir aðra líkamsárás. Handtökuheimildin var gefin út í Oklahomaríki á þriðjudag og gaf Ratray sig fram við lögreglu. Hann sat aðeins inni stutta stund þar sem hann greiddi tryggingu að upphæð 25 þúsund bandaríkjadalir til að losna.
Leikarinn er hvað þekktastur fyrir að fara með hlutverk í fyrstu tveimur Home Alone-kvikmyndunum en hann lék þar Buzz McAllister, eldri bróður aðalstjörnunnar Kevins McAllisters sem Macaulay Culkin túlkaði.
Fyrr í þessum mánuði var greint frá því að lögregla hefði verið kölluð til á hótel í miðborg Oklahoma vegna tilkynninga um heimilisofbeldi. Gaf Ratray þar lögreglu skýrslu og sagði að hann og kærasta hans hefðu rifist heiftarlega sem endaði í sambandsslitum þeirra. Var hún horfin á brott en gaf síðar skýrslu fyrir lögreglu.