Heimildir fréttamiðilsins Page Six herma að tónlistarmaðurinn Kanye West, eða Ye, líkt og hann heitir nú, sé hættur að slá sér upp með ungu fyrirsætunni Vinetriu.
Fjölmiðlar vestanhafs sögðu fyrst fréttir af ástarævintýri þeirra í október en það varði fremur stutt ef marka má nýjustu fregnir. Aldursmunur parsins vakti mikla athygli því Vinetria er aðeins 22 ára gömul en West átti 44 ára afmæli síðasta sumar.
Fyrr á árinu skildi leiðir Kanyes Wests og athafnakonunnar Kim Kardashian eftir sjö ára hjónaband. Hefur hann verið kenndur við tvær konur eftir að fréttir af skilnaðinum bárust en þau sambönd hafa fjarað út jafn skjótt og þau hófust.
Kanye West hefur ítrekað reynt að endurheimta fyrrverandi eiginkonu sína, Kim Kardashian, án árangurs. Hún tók lögskilnaðinum fagnandi og hefur verið upptekin við að eyða tíma með nýja kærastanum, grínistanum Pete Davidson. Má því segja að vonir Wests um að endurheimta fyrra fjölskyldulíf fölni með hverjum deginum sem líður.