Leikkonan Ellen Pompeo hefur barist fyrir því í þó nokkurn tíma að fleiri seríur verði ekki gerðar af þáttunum Grey's Anatomy. Pompeo fer með aðalhlutverk í þáttunum og hefur gert í 18 ár. Hún segir kominn tíma til að láta staðar numið í sögu Meredith Grey.
„Ég er búin að reyna að sannfæra alla um að það verði að klára þættina. Mér líður eins og ég sé sú barnalega sem heldur áfram að segja „en hvað á sagan að fjalla um, hvaða sögu erum við að fara að segja“?“ sagði Pompeo í viðtali við Insider á dögunum.
„Allir segja bara „hverjum er ekki sama Ellen, við erum að búa til fullt af peningum“, sagði Pompeo.
Pompeo hefur hagnast vel á þáttunum sem skutu henni upp á stjörnuhimininn. Þetta er þó ekki í fyrsta skipti sem hún segir að sér finnist þættirnir eiga að fara klárast. Í viðtali fyrr á þessu ári sagðist hún hafa verið að reyna að hætta í þáttunum í mörg ár.
„Það er ekki af því ég hafi ekki verið að reyna. Ég á í góðu og sterku sambandi við ABC og þau hafa reynst mér mjög, mjög vel, og hafa skapað hvatningu fyrir mig til að halda áfram í þáttunum,“ sagði Pompeo þá.