Elísabet Bretlandsdrottning minntist eiginmanns síns, Filippusar prins, í árlegu jólaávarpi sínu í dag.
„Jólin geta verið erfið fyrir þá sem hafa misst ástvini. Sérstaklega á þessu ári skil ég af hverju,“ sagði drottningin en þau voru gift í 73 ár áður en Filippus lést í apríl, 99 ára að aldri.
„Uppátækja- og forvitnisglampinn í augum hans var jafn bjartur í lokin eins og þegar ég hitti hann fyrst,“ sagði Elísabet.
„En lífið samanstendur bæði af hinsta skilnaði og fyrstu kynnum. Eins mikið og ég og fjölskyldan söknum hans vitum við að hann hefði viljað að við nytum jólanna,“ sagði Elísabet og bætti við að Filippus hefði alltaf getað gert sér glaðan dag.
Í vikunni tilkynntu fulltrúar Buckingham-hallar að minningarathöfn til heiðurs Filippusi yrði haldin í Westminster-dómkirkjunni næsta vor.
Þá minntist drottningin á mikilvægi þess að næsta kynslóðin tæki við keflinu en Elísabet, sem er 95 ára, hefur glímt við heilsufarsvandamál undanfarið.
Jólaávarpið, sem tekið er upp í Windsor-kastala, er umfangsmesta opinbera framkoma drottningarinnar í nokkra mánuði.
Elísabet eyðir nú jólunum í kastalanum, en vanalega hefur hún dvalið ásamt fjölskyldu sinni í Sandringham á Englandi yfir jólahátíðina.