Leikarinn Ryan Reynolds lendir reglulega í því að honum sé ruglað saman við annan leikara, Ben Affleck. Það gerist þó bara á einum stað, pítsustað í East village-hverfinu í New York. Reynolds hefur þó ekki haft það í sér að leiðrétta misskilninginn.
„Þeir halda að ég sé Ben Affleck og ég hef aldrei leiðrétt það,“ sagði Reynolds í hlaðvarpsþættinum Dear Hank & John. Hann segir nú vera komin mörg ár af því að starfsmenn pítsustaðarins ávarpi hann sem Affleck.
„Ég held að það myndi ekki fara vel ef ég leiðrétti þetta,“ sagði Reynolds. Hann telur jafnvel of seint að ætla að fara leiðrétta þennan misskilning.
„Þeir spyrja mig hvað sé að frétta af J. Lo og ég segi allt fínt, tek pítsuna mína og fer,“ sagði Reynolds og sagðist hafa áhyggjur af því að hann væri kannski ekki að bæta orðspor Afflecks.
„Þegar ég fer held ég að þeir hugsi: „Ég held að Ben Affleck finnist við ekki skemmtilegir. Við þurfum að vera hressari og hugsa um Ben.““
Reynolds sagði að sér hefði einnig verið ruglað saman við annan kanadískan leikara, Ryan Gosling. Hann segir þá tvo gríðarlega ólíka og að The Notebook hefði verið skelfileg ef hann hefði leikið í henni. „Það hefði verið algjört stórslys,“ sagði Reynolds.