Guðmundur Emil Jóhannsson, einkaþjálfari og vaxtarræktarkappi, greindist sýktur af kórónuveirunni. Þessu greinir hann frá í instagramsögu sinni í dag.
Hann segist óbólusettur en ætlar sér þrátt fyrir það að „jarða“ veiruna.
„Djöfull er ég að fara [að] jarða þessa veiru,“ segir Gummi Emil á Instagram og bætir við lyndistákni af fjólubláum púka. „Auðvelt.“
Guðmundur Emil, eða Gummi Emil eins og hann er jafnan kallaður, er einkaþjálfari og vaxtarræktarkappi sem hefur gert garðinn frægan á Instagram undanfarin tvö ár með ráðum um lyftingar og líferni.
Hann hefur verið styrktur af drykkjarframleiðandanum Nocco og hefur auk þess keppt í keppnum á sviði vaxtarræktar og hlaut meðal annars þriðja sætið í yngri flokki alþjóðlegu vaxtarræktarkeppninnar „Arnold Classic“.