Þótt þættirnir Verbúðin, sem sýndir voru á Ríkisútvarpinu í gærkvöldi, hafi fallið vel í kramið hjá íslenskum notendum á samfélagsmiðlinum Twitter þá er Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, ekki hrifinn af þáttunum. Hann segir þá endurspegla landsbyggðarfordóma Ríkisútvarpsins og höfuðborgarbúa.
„Í þessu framlagi Ríkisútvarpsins til menningarinnar í landinu er dregin upp sú mynd af fólki í sjávarplássi að þar sé meira og minna um undirmálsfólk. Toppskipstjórar séu drykkjusjúklingar sem láti troða amfetamíni í óæðri endann á sér. Samfarir þar sem ekkert er dregið undan en ljótleikinn í aðalhlutverki,“ skrifar Ásmundur í færslu á Facebook í gærkvöld.
Ásmundur er sjálfur ættaður úr Vestmannaeyjum og veit því eitt og annað um hvernig lífið er í sjávarplássi sem reiðir sig að stórum hluta á sjávarútveginn.
Þá segir Ásmundur einnig konur lítillækkaðar með „fáránlegu stripli sem engan tilgang hefur“ og vísar þar eflaust í senuna á ballinu þar sem Súsanna nokkur baðar sig. „Er þetta menningarframlag Ríkisútvarpsins til Me too-hreyfingarinnar?“ spyr Ásmundur.
„Er ekki kominn tími til að landbyggðarrasisma menningarvitanna og Ríkisútvarpsins linni? Baráttumálum Ríkisútvarpsins og samstarfsaðilum þess má koma á framfæri á annan hátt en gera lítið úr fólki sem vinnur mikilvæg gjaldeyrisskapandi störf á landsbyggðinni og í sjávarplássum allt í kringum landið,“ skrifar Ásmundur að lokum.
Færslu Ásmundar má lesa í heild sinni hér fyrir neðan.