Aldamótakynslóðin og yngri kynslóðir ráku upp stór augu við áhorf á fyrsta þætti af Verbúðinni á sunnudagskvöldið þegar þar birtist nakin kona, sem baðaði sig í bala á balli. Eldri kynslóðir og þau sem upplifðu árin sem þættirnir gerast á, 1983 til 1991, blikkuðu hins vegar ekki auga því nakta konan kom oft fyrir á böllum hér á árum áður.
Í Verbúðinni hét konan sem baðaði sig fyrir ballgesti Súsanna. Í raunveruleikanum heitir hún Susan Hasslund og er ættuð frá Árósum í Danmörku. Susan kom hingað til lands með sýningar sínar á árunum 1974 til 1981 og ferðaðist hringinn í kringum landið með sýningarnar.
Í 33. tölublaði Vikunnar frá árinu 1978 má finna viðtal við Susan. Þar segir að Susan hafi lært barnahjúkrunarfræði og starfaði á heildsölu þegar hún væri ekki að baða sig. Þegar viðtalið var tekið hafði hún komið fjórum sinnum til Íslands og líkað vel.
Susan baðaði sig fyrir Íslendinga mun oftar eftir það og sé því flett upp á Tímarit.is má sjá auglýsingar reglulega í blöðunum þar sem hún baðaði sig á ýmsum veitingahúsum hér á landi. Í viðtalinu við Vikuna sagðist Susan ekki hafa áhyggjur af framtíðinni, hún stefndi ekki á að baðstundir yrðu hennar framtíðarstarf þar sem hún væri menntuð í barnahjúkrun.
Síðar á níunda áratug síðustu aldar fóru nektar- og nærfatasýningar að vera meira áberandi á veitinga- og skemmtistöðum Reykjavíkurborgar. Þá steig Pan-hópurinn fram um miðjan áratuginn. Hópurinn stóð fyrir nærfata- og kynlífstækjasýningum á veitingastöðum, félagsheimilum sem og á einkastöðum. Tíu árum seinna var svo nektardansstaðurinn Bóhem opnaður við Vitastíg og gerði allt vitlaust.