Allt virðist nú í blóma hjá stjörnuparinu Trevor Noah og Minka Kelly eftir erfitt ár. Noah birti mynd af parinu í afmælisveislu í heimalandi hans, Suður-Afríku, og því ljóst að Kelly hefur komið með honum heim um jólin og hitt fjölskyldu hans.
Fyrst fréttist af sambandi suður-afríska spjallþáttastjórnandans og leikkonunnar á haustmánuðum 2020. Þau hættu svo saman í maí á þessu ári. Um haustið virtst þau þó hafa náð aftur saman þegar þau sáust saman í fríi á St. Barts.
Þá sáust þau Noah og Kelly einnig saman á gangi í New York borg. Hvorugt þeirra hefur talað um sambandið á opinberum vettvangi og hingað til hafa þau ekki birt myndir af hvoru öðru á samfélagsmiðlum.
Noah heldur úti vinsælum spjallþætti í Bandaríkjunum, The Daily Show, og hefur einnig getið sér gott orð sem uppistandari. Kelly er leikkona og hefur leikið í fjölda kvikmynda og þátta. Hún er hvað þekktust fyrir hlutverk sitt í unglingaþáttunum Friday Night Lights en hún leikur nú í þáttunum Titans.