Tónlistarmaðurinn Andre Young, betur þekktur sem Dr. Dre þarf að greiða fyrrverandi eiginkonu sinni, Nicole Young, 100 milljónir bandaríkjadala við skilnað þeirra. Mun hann greiða henni 50 milljónir á þessu ári og 50 milljónir á því næsta.
Dr. Dre og Young hafa loks komist að samkomulagi um skiptingu eigna sinna og hversu mikið tónlistarmaðurinn þarf að greiða henni í framfærslueyri. Auðævi Dr. Dre eru metin á 820 milljónir bandaríkjadala og hefur hann samþykkt að greiða henni um fimmtung af auðævum sínum og rúmlega helming af fjárfestingum sínum.
Young þarf að flytja út af heimili þeirra í Malibu fyrir lok árs og fær hún að halda þremur bifreiðum, einu mótorhjóli og öllum skartgripum sínum.
Dr. Dre heldur öllum sjö eignum þeirra eftir skilnaðinn og sex bifreiðum. Hann heldur einnig útgáfurétti á tónlist sinni auk hlutabréfa í Apple.
Young og Dr. Dre eiga saman tvö uppkomin börn, soninn Truice sem er 24 ára og dótturina Truly sem er tvítug. Mun Dr. Dre ekki þurfa að greiða henni meðlag vegna barnanna þar sem þau eru fullorðin.
Young sótti um skilnað við Dr. Dre um mitt ár 2020 eftir 24 ára hjónaband. Hefur skilnaður og skipting eigna gegnið brösulega hingað til en nú hafa þau loksins náð sáttum.