Bandaríski fjöllistamaðurinn Kanye West ætlar að láta rífa hús sem hann festi nýverið kaup á. Húsið er í Hidden Hills í Kaliforníuríki í Bandaríkjunum og er beint á móti húsi hans og fyrrverandi eiginkonu hans Kim Kardashian.
West og Kardashian standa nú í skilnaði en hún býr í gamla húsinu þeirra ásamt börnum þeirra fjórum.
West keypti húsið á 4,5 milljónir bandaríkjadala og er hann sagður hafa keypt það aðeins staðsetningarinnar vegna. Vill hann vera nær börnum sínum eftir skilnaðinn. Þar á undan keypti hann stærðarinnar hús í Malibu, sem er í um 30 mínútna akstursfjarlægð frá heimili Kardashian. Hefur honum þótt húsið ekki nægilega nálægt fjölskyldunni og því keypti hann hitt húsið líka.
Húsið í götu Kardashian var byggt árið 1955 og hefur verið í eigu sömu fjölskyldu frá því að það var byggt. Í því eru fimm svefnherbergi og fjögur baðherbergi.