Fríða Ísberg, ljóðskáld og rithöfundur, hlaut Íslensku bjartsýnisverðlaunin árið 2021 en Guðni Th. Jóhannesson forseti afhenti verðlaunin í dag á Bessastöðum.
Bjartsýnisverðlaunin eru menningarverðlaun sem hafa verið afhent árlega frá árinu 1981 og eru þau hugsuð sem viðurkenning og hvatning fyrir íslenska listamenn.
Í verðlaun hlaut Fríða áletraðan grip úr áli frá ISAL í Straumsvík og eina milljón króna í verðlaunafé.
Hún lauk meistaraprófi í ritlist frá Háskóla Íslands árið 2017 og BA-prófi í heimspeki árið 2014 frá sama skóla. Fríða hefur unnið við ritlist lengi og hlotið ýmsar viðurkenningar.
Í dómnefnd Íslensku bjartsýnisverðlaunanna eru Þórunn Sigurðardóttir, Magnús Geir Þórðarson, Sif Gunnarsdóttir og Rannveig Rist.