Dómari í Kaliforníu í Bandaríkjunum hefur vísað máli Spencer Elden frá. Elden höfðaði mál gegn hljómsveitinni Nirvana vegna myndar sem prýðir plötuumslag plötunnar Nevermind sem kom út árið 1991.
Elden var ungbarn þegar myndin var tekin, en á henni er hann nakinn að synda í sundlaug og virðist vera að synda á eftir peningaseðli. Elden hefur haldið því fram að myndin hafi valdið honum ævilöngum skaða og að myndin sé barnaníðsefni þar sem hann er nakinn og kynfæri hans eru greinileg.
Málið höfðaði Elden í ágúst á síðasta ári. Lögmenn Nirvana vísuðu ásökunum á bug í tilkynningu í desember og sögðu ásakanir Eldens ekki alvarlegar. Þar að auki væru hin meintu brot fyrnd.
Elden gæti aðeins höfðað málið innan tíu ára frá því að hann hafi uppgötvað að hann hafi verið barnið á plötuumslaginu. Lögmennirnir höfnuðu þeim staðhæfingum Eldens að hann hafi áttað sig á því á síðastliðnum tíu árum, en Elden er á þrítugasta og fyrsta aldursári.
Samkvæmt heimildum Spin hafði Elden og lögfræðingar hans tækifæri til 30. desember til að færa betri rök fyrir máli sínu. Þegar engin gögn höfðu borist dómara á nýju ári var málið látið niður falla. Elden hefur þó enn tækifæri til að færa betri rök fyrir málshöfðun sinni, til 13. janúar.
Ef dómara berast engin betri rök verður málið látið endanlega niður falla. Ef Elden færir hins vegar betri rök fyrir máli sínu hefur Nirvana tvær vikur til þess að svara.