Grammy-verðlaunum bandarísku hljómlistaakademíunnar hefur verið frestað vegna hraðrar útbreiðslu Ómíkrón-afbrigðisins vestanhafs. Verðlaunaafhendingin átti að fara fram þann 31. janúar en hefur nú verið frestað um ótilgreindan tíma.
Sundance kvikmyndahátíðin tilkynnti einnig í dag að hún myndi að öllu leyti fara fram rafrænt af sömu ástæðu.
Hildur Guðnadóttir hreppti Grammy-verðlaunin í annað sinn í fyrra en þá fór afhendingin fram í mars eftir frestun. Viðburðurinn var þá sérstaklega sniðinn að sjónvarpsútsendingum en afhendingin í ár átti að vera með hefðbundnu sniði í Staples Center í Los Angeles.
Nú er þó ljóst að ekkert verður af því. Í tilkynningu frá Akademíunni segir að skipuleggjendur væru að bjóða hættunni heim ef hátíðin færi fram í lok þessa mánaðar.
„Öryggi og heilsa tónlistasamfélagsins, áhorfenda í salnum og þeirra hundruða starfsmanna sem koma að verðlaunaafhendingunni er, og verður, forgangsatriði hjá okkur,“ segir enn fremur í tilkynningunni.